Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að tekist hafi að breyta almannafé, sem bundið var í áhætturekstri, í innviði fyrir fólkið í landinu með sölunni á Íslandsbanka.

„Reynt er að flýta athuguninni eins og kostur er,“ segir í svari Fjármálaeftirlitsins um söluna á Íslandsbanka en Ríkisendurskoðun lagði ekki mat á það í skýrslu sinni hvort vinnubrögð umsjónar­aðila söluferlisins hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglur.

„Þar á meðal hvort sölunni hafi verið beint að öðrum en hæfum fjárfestum. Það síðastnefnda sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands,“ segir Ríkisendurskoðun.

Ríkissjóður hefur gert ráð fyrir frekari sölu í Íslandsbanka í bókhaldinu. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að í skýrslunni komi fram mikilvægar ábendingar sem stjórnvöld muni horfa til við næstu skref í þessum málum.

„Það er jákvætt að sjá að Ríkisendurskoðun telur söluna hafa verið almennt hagfellda fyrir ríkissjóð. Undir þetta verð ég að taka.

Frávik frá síðasta skráða gengi var umtalsvert minna en þekkist í sambærilegum sölum í nágrannaríkjum okkar og söluandvirðið, sem hingað til nemur um 108 milljörðum, stendur undir allri fjárfestingu ríkisins á næsta ári og meira til.

Við erum að breyta almannafé, sem bundið var í áhætturekstri, í innviði fyrir fólkið í landinu,“ segir Bjarni.

Spurður hvort skýrslan hafi einhver áhrif á frekari sölu segir hann að stutta svarið sé já. „Áhrifin felast helst í því að við vinnum nú í að móta nýtt fyrirkomulag við utanumhald og sölu hluta – eins og boðað var í yfirlýsingu formanna ríkisstjórnarflokkanna í vor.

Núverandi lagarammi, sem settur var í stjórnartíð Samfylkingarinnar, er einfaldlega úr sér genginn. Þess vegna lagði ég til árið 2016 að Bankasýslan yrði lögð niður og nýtt fyrirkomulag tekið upp, en fékk ekki hljómgrunn fyrir því á Alþingi. Það leggjum við hins vegar aftur til nú – og munum hafa skýrsluna til hliðsjónar við þá vinnu,“ segir Bjarni.