Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítala, segir aukin fjárframlög til spítalans sem gert er ráð fyrir í nýbirtu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, vera skref í rétta átt. Þó gerir hún ekki ráð fyrir að þessi skref nægi til að leysa úr undirliggjandi rekstrarvanda spítalans.

„Það er verið að auka útgjöld til heilbrigðismála í fjárlögunum 2022, og mér finnst það mjög jákvætt,“ sagði Guðlaug Rakel í viðtali við RÚV. „Og það sem mér finnst líka vera mjög jákvætt er að það er þessi viðbót sem er ætluð til viðbragða vegna Covid.“

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítala.

„Það náttúrlega kom líka inn í sáttmálann sérstakur stuðningur við bráðamóttökuna og sérstakur stuðningur við gjörgæsluna sem er sannarlega hágæslan að hluta til. Það er verið að koma til móts við það að hluta til, jú.“

Vandinn við rekstur spítalans sé þó stærri en svo að breytingarnar í nýju fjárlögunum nægi til að leysa hann. Við reikninga á því hve mikið fé þurfi til að leysa rekstrarvandann hafi Guðlaugu talist til að meira þurfi en gert er ráð fyrir í fjárlögunum. „Ef við ætlum að laga allt sem við þurfum að laga, þá er það töluvert annað en fjárlagafrumvarpið segir til um, en þetta er sannarlega skref í rétta átt.“