„Þessi fjárlög eru svik við öryrkja og eldri borgara. Ungt fólk og millistéttin eru líka skilin eftir,“ sagði Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í gær þegar fjárlög næsta árs voru afgreidd.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði hins vegar að við samþykkt fjárlaganna blasti við góð staða. „Staða ríkissjóðs hefur í raun aldrei verið betri, landsframleiðslan aldrei mælst hærri.“ Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í sama streng og talaði um sóknarfjárlög.

Meðal þess sem þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu var lækkun veiðigjalda á sama tíma og verið væri að skera niður í velferðarkerfinu. „Þar opinberar ríkisstjórnin sérhagsmunagæslu sína vel,“ sagði Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar.