Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í dag frá fjárkröfum fólksins sem lifði af brunann í Bræðraborgarstíg og aðstandenda þeirra þriggja sem létust í brunanum. Þau höfðu krafist þess að HD verk ehf. og Kristinn Jón Gíslason myndu greiða samtals 162.087.101 króna auk vaxta, en húsið var í eigu HD verks og Kristinn er eigandi þess.

Fólkið hafði jafnframt krafist staðfestingu á kyrrsetningargerð gegn HD verk og Kristni, en sá hluti málsins verður tekinn fyrir í næstu viku.

Íbúarnir og aðstandendurnir, sem eru sautján talsins, höfðu líkt og áður segir krafist samtals rúmlega 162 milljóna krína en kröfurnar voru misháar, frá fjórum milljónum króna upp í tæpar þrjátíu milljónir.

Guðbrandur Jóhannesson, lögmaður fólksins, vildi ekki tjá sig um málið. Lögmaður HD verks, Skúli Sveinsson, sagði að um væri að ræða einn áfanga í málinu.

Fyrrverandi íbúar kröfðust:

 1. 17.715.722
 2. 7.898.330
 3. 9.997.899
 4. 12.204.475
 5. 19.905.609
 6. 24.472.504
 7. 29.892.562
 8. 4.000.000
 9. 4.000.000
 10. 4.000.000

Aðstandendur hinna látnu kröfðust:

 1. 4.000.000
 2. 4.000.000
 3. 4.000.000
 4. 4.000.000
 5. 4.000.000
 6. 4.000.000
 7. 4.000.000
Marek Moszczynski var í fyrra sýknaður vegna ósakhæfis af ákæru um íkveikju á Bræðraborgarstíg.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Í stefnu fólksins kom fram að sex íbúanna urðu fyrir varanlegri örorku. Öll hafi þau þurft að leita til ýmist sálfræðings eða geðlæknis vegna andlegrar heilsu sinnar í kjölfar brunans, þar á meðal vegna kvíða, þunglyndis og áfallastreituröskunar.

Íbúarnir og aðstandendur töldu sannað að Kristinn hafi valdið þeim tjóni þar sem húsið uppfyllti ekki kröfur um brunavarnir, eldvarnir og eldvarnareftirlit, en vísað var í matsgerð Guðmundar Gunnarssonar byggingaverkfræðings og lokaskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar málinu til stuðnings.

Í stefnunni kom fram að of margir hafi búið í húsinu við Bræðraborgarstíg og breytingar hafi verið gerðar á því án leyfis sem leiddu til aukinnar eldhættu og takmörkuðu flóttaleiðir. Þá kom fram í stefnunni að brunavörnum hafi verið ábótavant og rýmingarleiðir verið ófullnægjandi. Þar að auki hafi reykskynjarar í húsinu ekki virkað og engin slökkvitæki verið á staðnum.

Þá sagði í stefnunni að eigandinn hafi ekki brugðist við ítrekuðum beiðnum leigjenda og nágranna um að bæta brunavarnir í húsinu.

Marek Moszczynski var í fyrra sýknaður vegna ósakhæfis af ákæru um íkveikju á Bræðraborgarstíg. Þrír létust í eldsvoðanum. Marek var dæmdur ósakhæfur vegna geðrofs og honum gert að sæta öryggisvistun á réttargeðdeild.