Kennt verður í fjar­kennslu út vikuna í Fjöl­brauta­skólanum á Suður­landi, FSu, vegna smita sem greinst hafa meðal starfs­manna skólans.

Að sögn Olgu Lísu Garðars­dóttur, skóla­meistara, hafa alls sex smit greinst en sá seinasti fékk skila­boð í morgun um já­kvætt sýni. Olga segir að hún eigi allt eins von á því að fleiri greinist en þó­nokkrir kennarar voru heima í gær og fóru í sýna­töku vegna ein­kenna.

„Það voru margir kennarar heima í gær vegna ein­kenna. Við höfum verið að hamra á því að mæta ekki ef fólk er þannig statt,“ segir Olga Lísa.

20 prósent í verknámi

Hún segir að ein­hver hluti þeirra sem hafi verið smitaður hafi verið við vinnu í vikunni en ein­hverjir hafi ekki verið í vinnu frá því fyrir helgi. Hún segir að þeir nem­endur sem hafi verið í kennslu hjá þeim kennurum sem eru smitaðir en mættu í vikunni séu í smit­gát og fari í hrað­próf núna og svo aftur eftir fimm daga.

Olga segir að þau hafi verið heppin í fyrra og að nánast engin smit hafi greinst í skólanum þannig að það sé á­kveðið á­fall hversu mikið um­fangið er núna. Hún segir líka erfitt að vita ekki hvaðan smitin koma.

„Það verður fjar­nám alla­vega í þessari viku og svo sjáum við hvað gerist í vikunni og hvort það þurfi að fram­lengja í næstu viku,“ segir Olga Lísa.

Hún segir að all­flestir nem­endur og kennarar séu vanir fjar­kennslunni en að um fimmtungur nem­enda séu í verk­námi og að þetta komi illa fyrir þau.

„Þau geta ekki mætt og það eru helst þeir sem verða fyrir truflun,“ segir Olga Lísa.

Alls greindust 84 innanlandssmit í gær. Alls eru 58 í einangrun á Suðurlandi og 119 í sóttkví sem er fjölgun í báðum hópum frá því í gær.