Vandamál vegna undirmönnunar á flugvöllum og tíðra flugraskana hafa ekki aðeins komið niður á farþegum síðustu vikur heldur ekki síður flugfélögunum sjálfum.

Rekstur flugfélaga er heilt yfir erfiður um þessar mundir og í sumum tilvikum bætist vandinn við áður uppsafnaðan vanda vegna alheimsfaraldurs Covid-19 og menningarbreytinga á ferðavenjum vegna faraldursins.

Scandinavian Airlines (SAS) tilkynnti fyrr á árinu áætlun um að endurskoða starfsemi sína til að tryggja það sem stjórnendur kölluðu „sjálfbæra efnahagslega framtíð“. Áætlunin, sem kallast SAS Forward, fól í sér niðurskurð kostnaðar um marga milljarðatugi, endurskoðun á flotanum, stafræna umbreytingu og öflun nýs fjármagns.

Það sem ekki komst inn í áætlanir SAS um framtíðina var sú breyta að eftir að áhrif Covid fóru að dvína hefði það komið atvinnulífinu á Norðurlöndunum á óvart hve hægt væri að spara mikinn kostnað með því að taka upp fjarfundi á tímum kórónaveirunnar í stað ferðalaga.

Það er ekkert grín að fljúga þessa dagana. Mikil röskun er áskorun jafnt fyrir flugfélög sem farþega.
Mynd/Getty

Þeir sem bjuggust við að allt yrði eins og fyrir faraldur höfðu rangt fyrir sér, að því er fram hefur komið í fjölmiðlum víða um heim. Vísbendingar eru um að þessi breyting hafi bitnað harðar á SAS en mörgum öðrum flugfélögum.

Eftir að áhrif faraldursins hurfu að mestu, sjá mörg einkafyrirtæki og hluti hins opinbera enn enga ástæðu til að taka aftur upp fyrri hætti með fundaferðalögum.

Við þessar breytingar missir SAS líkt og mörg önnur flugfélög spón úr aski sínum. Breytingin á ekki síst við um opinbera starfsmenn sem minnkandi kúnnahóp en einnig skrifstofufólk og stjórnendur í einkageiranum. Aukin áhersla á minni losun og jákvæð umhverfis­áhrif þegar farþegi sleppir því að fljúga, spila einnig rullu.

Erlendir sem innlendir fjölmiðlar hafa fjallað nokkuð um menningarlegar breytingar í kjölfar Covid. Rekstur sem byggði á módelum sem þóttu föst í hendi hefur í sumum geirum tekið meiri breytingum en nokkurn óraði fyrir.

Síðasti vetur var sérlega grimmur í þessum efnum. Skandinavískir sérfræðingar höfu búist við tapi hjá SAS sem næmi á milli 200 og 215 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi. Hins vegar tapaði SAS 276 milljónum dala fyrir skatta af 565 milljóna dala rekstrartekjum.

Í ársfjórðungsskýrslu sinni sagði flugfélagið að áætlunin yrði að takast, þar sem ferðamynstur fólks hefði breyst: „SAS þarfnast nýrrar byrjunar frekar en nokkru sinni.“ Sú byrjun lætur enn á sér standa.

Líkt og hjá Icelandair hafa breyttar markaðsaðstæður og aukin samkeppni einnig sett svip á rekstur SAS og margra annarra stærri félaga. Í Noregi hefur SAS staðið frammi fyrir harðri samkeppni frá Norwegian Air og nýjum lággjaldakeppinauti, Flyr, sem hóf starfsemi meðan á heimsfaraldri stóð. Flyr stækkar hratt. Eru lággjaldafélög sögð hafa átt auðveldara með að aðlaga sig breytingum en flugfélög sem buðu upp á meiri þægindi og þjónustu.

Vandamál SAS eru þó ekki ný af nálinni. SAS Forward er ekki eina sparnaðar- og hagræðingar­áætlun sögunnar heldur var árið 2012 kynnt neyðaráætlun sem bar heitið Final Call. Flugrekstur félagsins stóð þá mjög tæpt en var bjarg­að á ögurstundu.

Áætlað er að skuldir SAS nemi nú 500-600 milljónum dala.