Félag atvinnurekenda, Frumtök og Samtök verslunar og þjónustu hafa sent sameiginlega umsögn um framlag til lyfjamála við frumvarp til fjárlaga 2022. Þar lýsa þau áhyggjum af vanáætluðum útgjöldum til lyfja í fjármálaáætlun og fjárlögum.
Landspítali hefur einnig sent inn umsögn um fjárlagafrumvarpið. Þar segir að ef fram fer sem horfir vantar tvo milljarða króna upp á fjárveitingar til Landspítala fyrir leyfisskyld lyf árið 2022.
Sjúkratryggingar Íslands birtu í nóvember samantekt þar sem fram kom að hún gerði ráð fyrir að kostnaður vegna almennra lyfja á þessu ári yrði 14,676 milljarðar króna en samkvæmt frummati stofnunarinnar var gert ráð fyrir að hann yrði 14,394 milljarðar. Fjárheimild á fjárlögum þessa árs til almennra lyfjakaupa var 11,854 milljarðar.
Margra milljarða mismunur
Mismunurinn er því 2,54 milljarðar vegna almennra lyfja og því, að viðbættum mismuni vegna kaupa á leyfisskyldum lyfjum, um 5,5 milljarðar.
„Ein afleiðing af ítrekaðri vanáætlun er að stjórnvöld grípi reglubundið til vanhugsaðra niðurskurðaraðgerða sem stefna beinlínis lyfjaöryggi og þar með öryggi sjúklinga í hættu. Tilraun til slíks átti sér einmitt stað í desember í fyrra en var afstýrt eftir að m.a. undirrituð samtök bentu á alvarlegar afleiðingar reglugerðardraga, sem þáverandi heilbrigðisráðherra setti fram til að keyra niður lyfjakostnað“, segir í umsögn samtakanna þriggja sem hafa átt í viðræðum við heilbrigðisráðuneytið um leiðir til að lækka kostnað við rekstur heilbrigðiskerfisins, meðal annars með því að lyfjaverðstefna stjórnvalda tryggi að ný hagkvæm lyf með bætta virkni fáist skráð hérlendis.
„Þeirri vinnu er langt í frá lokið. Samtökin telja að við vanáætlun lyfjaútgjalda þurfi fjárlaganefnd að bregðast og auka þurfi framlög vegna almennra lyfja til samræmis við mat Sjúkratrygginga Íslands. Að öðrum kosti er fyrirsjáanlegt að kostnaður vegna liðarins mun fara langt fram úr fjárframlögum, með óæskilegum afleiðingum eins og að framan er lýst“, segir enn fremur í umsögn samtakanna.