Fjár­festinga­bankinn Citigroup hefur sagt upp hátt settum verð­bréfa­sala vegna gruns um að hann hafi stolið mat úr mötu­neyti bankans. Í frétt BBC segir að verð­bréfa­salinn hafi verið með meira en 160 milljónir króna, auk bónusa, í árs­laun.

Citigroup hefur ekki tjáð sig um málið en sam­kvæmt heimildum BBC var verð­bréfa­salinn, sem heitir Paras Shah og er 31 árs, gripinn við að taka sam­lokur úr mötu­neytinu í höfuð­stöðvum bankans. Ekki hefur komið fram hvers konar samlokur hann hafi helst girnst, né hversu oft hann sé grunaður um að hafa hjálpað sér sjálfur.

Shah, sem var yfir deild innan bankans sem sér um við­skipti með skulda­bréf, var sagt upp einungis ör­fáum vikum áður en greiða átti út bónusa til lykil starfs­manna.

Annar stal lestar­miðum

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hátt settur starfs­maður fjár­mála­fyrir­tækis í London lendir í klandri vegna smá­þjófnaðar. Sem dæmi var stjórnanda hjá vogunarsjóðnum BlackRock árið 2014 meinað að starfa hjá fjár­mála­fyrir­tækjum eftir að hann var gripinn við að svindla sér um borð í lestar.

Fjár­mála­eftir­lit Bret­lands sagði þá að vegna stöðu sinnar hefði hann átt að vera til fyrir­myndar fyrir aðra og hegðun hans hefði „ekki verið í sam­ræmi við mann í hans stöðu.“ Ekki er vitað hvort að Paras Shah muni hljóta sömu örlög.