Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála­ráð­herra segir að vindorka sé komin á dag­skrá hjá ís­lenskum stjórn­völdum. Nú komi lands­mönnum vel að hafa verið sein til við beislun vindorku, enda geti Ís­land lært af mis­tökum annarra ríkja.

For­sætis­ráð­herra varar við að einka­aðilar fái að helga sér lönd í vindorku­skyni. Mikil­vægt sé að skýr opin­ber stefnu­mörkun eigi sér stað áður en fram­kvæmdir hefjist.

Frétta­blaðið fjallaði um mögu­leika á nýtingu vindorku í gær eftir að Dala­byggð fékk sam­þykki Skipu­lags­stofnunar fyrir breytingu á aðal­skipu­lagi undir vindorku­ver fyrir al­mennan markað. Er það í fyrsta skipti sam­þykkt hér á landi.

Fram kom að jafn­vel þúsundir mega­vatta gætu orðið til ef sátt næst um vindorku­garða á sjó eða á landi.

„Það er skortur á orku og við stöndum á tíma­mótum hvað varðar val­kosti vegna vindorkunnar. Ég held að við ættum að greiða úr þeim á­lita­efnum sem hér eru innan­lands áður en við veltum fyrir okkur sæ­streng,“ segir Bjarni Bene­dikts­son.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Fréttablaðið/Valli

Bjarni segir að Ís­lendingar þurfi nú sem þjóð að vanda sig

„Það er kostur hvað við erum komin skammt á veg því við getum lært af mis­tökum annarra,“ segir Bjarni. „Við þurfum að gæta þess að vind­myllur rísi ekki um allt land, ekki á hverjum hól og í hverjum dal heldur ná­lægt tengi­virkjum. Við þurfum að há­marka mögu­leika okkar á sama tíma og við lág­mörkum sjón­ræn á­hrif.“

Vindorkan hefur að sögn fjár­mála­ráð­herra orðið mjög sam­keppnis­hæf á fáum árum.

„Frá­bær við­bót með vatns­afli,“ segir Bjarni. „Vindorkan er komin mjög ræki­lega á dag­skrá. Það væri glap­ræði að nýta ekki þau gríðar­legu tæki­færi sem eru í vindorku til að láta orku­skiptin ganga í gegn.“

Rætt hefur verið að sjón­ræn á­hrif standi helst í Ís­lendingum, enda mann­virki vindorku­garða risa­vaxin. Á­hrifin kynnu að verða minna á­lita­efni ef vind­myllur rísa í sjó. Bjarni upp­lýsir að hann hafi heyrt í aðilum sem vilji fá haf­svæði til út­hlutunar til að kanna beislun vindorkunnar.

„Mér finnst lík­legt að orku­verð ráði fram­haldinu. Þetta eru dýrari lausnir, en maður skyldi ekki úti­loka neitt. Það er verið að reisa vind­myllur í sjó ekki langt fyrir sunnan okkur,“ segir Bjarni. „Það er aug­ljóst að við þurfum þessa við­bót.“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Fréttablaðið/Valli

Katrín vill að farið sé varlega

Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra telur á­stæðu til að fara var­lega. Í vindorku­málunum sé í upp­siglingu á­stand sem kalli á strangt reglu­verk. Hægt sé að hafa stjórn á fram­haldinu en fyrst þurfi tafar­laust inn­grip stjórn­valda.

„Bæði inn­lendir og er­lendir aðilar eru að reyna að helga sér svæði en það er ekki hægt að ráðast í neinar fram­kvæmdir fyrr en stefnu­mörkun liggur fyrir um hvernig við hegðum gjald­töku. Við þurfum að læra af sögunni,“ segir for­sætis­ráð­herra og er væntan­lega að vísa í kvóta­kerfið og fram­sal afla­heimilda úr sam­eigin­legri auð­lind lands­manna.

Katrín nefnir að um­hverfis­ráð­herra hafi stofnað starfs­hóp um vind í hafi. Hún segir að vindorku­mál beri iðu­lega á góma í sam­tölum hennar við for­sætis­ráð­herra annarra landa.

„Það eru allar þjóðir að horfa til vindorku­vera. Jafn­vel er talað um fljótandi vind­myllur eða lengra úti á hafi,“ segir Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra.