RARIK mun halda áfram rekstri fjarvarmaveitu fyrir Seyðisfjörð þar til annar kostur hefur verið staðfestur. Þá er óhjákvæmilegt að hætta rekstri hennar vegna óvissu um framboð á ótryggðri raforku en það hefur ekki svaraði kostnaði að endurnýja dreifikerfinu. Upphaflega stóð til að loka fyrir heita vatn Seyðfirðinga í lok þessa árs.

Heitt vatn bíður

Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri Seyðisfjarðar, segir besta kostinn vera Fjarðarheiðargöng. Þá væri hægt að leggja hitaveitulagnir í gegnum göngin og væri hægt að fá heitt vatn frá Hitaveitu Egilsstaða og Fella.

„Við gætum fengið heitt vatn frá Héraðinu. Það er alveg gerlegt. Þar er nóg af heitu vatni sem bíður okkar. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur að fá þessi göng,“ segir Aðalheiður í samtali við Fréttablaðið.

Það gæti hins vegar ekki orðið fyrr en 2024 ef marka má samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033. Þar er lagt til að farið verði í framkvæmdir við jarðgöngin á öðru og þriðja tímabili áætlunnar. Annað tímabil hefst ekki fyrr en 2024.

Sjóvarmadælur, rafkatlar eða göng

Bæjaryfirvöld hafa skoðað alla möguleika. Gerðar voru könnunarboranir eftir heitu vatni á Fjarðarheiði í samstarfi við Vegagerðina sem undirbýr möguleg Fjarðarheiðargöng. Þar fannst hins vegar ekkert heitt vatn.

„Við höfum skoðað ýmsar leiðir eins og að nota sjóvarmadælur og bora eftir vatni en það finnst ekki. Það fannst volgt vatn en það dugar ekki til fyrir allan bæinn og sjórinn er of kaldur,“ segir Aðalheiður. Árið 2016 var einnig litið á þann möguleika að kaupa rafkatla í öll hús á Seyðisfirði.

Gætu þurft að bíða í rúmlega 10 ár eftir lausn

Bæjarbúar hafa beðið lengi eftir Fjarðarheiðargöngum og hefur baráttan um göngin varið í rúmlega 40 ár.

Enn hefur ekki fundist raunsæ langtímalausn á hitaveituvanda Seyðisfjarðar og gætu bæjarbúar þurft að bíða í 5-10 ár í viðbót eftir lausn, jafnvel lengur.

„Við gætum fengið heitt vatn frá Héraðinu. Það er alveg gerlegt. Þar er nóg af heitu vatni sem bíður okkar.“