„Við þurfum að vera á tánum gagn­vart Ör­æfa­jökli,“ segir dr. Hjalti Jóhannes Guð­munds­son, land­fræðingur í sam­tali við Morgun­blaðið í dag. Hjalti rann­sakaði eld­virkni­sögu og jökla­breytingar í Ör­æfa­jökli vegna doktors­rit­gerðar sinnar.

Nokkrir snarpir skjálftar urðu í Ör­æfa­jökli fyrr í þessari viku og mældist sá stærsti, 3,1 upp úr klukkan tíu að morgni mið­viku­dags. Ör­æfa­jökull er ein hættu­legasta eld­stöð landsins þó að­eins hafi gosið tvisvar frá land­námi. Árið 1362 varð þar eld­gos sem lagði sveitina Litla-Hérað í eyði en um var að ræða stærsta sprengi­gos á Ís­landi frá land­námi.

Í sam­tali við Morgun­blaðið segir Hjalti að hann hafi séð út frá gögnum sínum að þegar Ör­æfa­jökull hörfaði á öldum áður þá gerðist það hratt í jarð­sögu­legu til­liti.

„Í kjöl­far þess fylgdu eld­gos, miðað við gjósku­lög sem ég kort­lagði á svæðinu. Það er mjög góð fylgni á milli jökul­hörfunar og mis­stórra eld­gosa í Ör­æfa­jökli. Nú bráðna jöklarnir okkar sem aldrei fyrr,“ segir hann í Morgun­blaðinu og bætir við að jöklarnir okkar séu við­kvæmir fyrir loft­hita­breytingum.

„Fjallið virðist vera að vakna og þá spyr maður sig hvort það sé að koma í ljós að þegar jökullinn þynnist og farginu léttir opnist jarð­skorpan og fari að hleypa kviku upp í gegnum sig? Eða er eitt­hvað allt annað að gerast? Það þarf að gera rann­sóknir á því,“ segir hann.