Innlent

Fjallar um lög­mæti hand­tökunnar í Polar Nanoq

Júlíana Amalía E. Sveinsdóttir fjallar í lokaritgerð sinni til BA náms í lögfræði um lögmæti handtöku Thomasar Möller Olsen um borð í Polar Nanoq á síðasta ári. Í ritgerðinni veltir hún upp líklegum niðurstöðum þessa álitaefnis fyrir Landsrétti.

Júlíana með BA ritgerðina sína Aðsend mynd/Júlíana Amalía Sveinsdóttir

Júlíana Amalía Sveinsdóttir er við það að ljúka BA námi í lögfræði og var að skila lokaritgerð þar sem hún fjallar um refsilögsögu íslenska ríkisins og hvort handtaka Thomas Möller Olsen um borð í Polar Nanoq á síðasta ári hafi mögulega verið ólögmæt.

Thomas Möller Olsen var dæmdur í september síðastliðinn í héraðsdómi Reykjaness, en situr enn í gæsluvarðhaldi, þar til endanlegur dómur er kveðinn upp. Mál hans átti að fara fyrir Landsrétt nú í vor, en vegna tafar á matsskýrslum, er talið líklegt að málið fari ekki fyrir Landsrétt fyrr en í haust.

Sjá einnig: Nýr verjandi Thomasar Møller segir málið líklega bíða til hausts

Íslenska ríkið hefur almennt ekki lögsögu til að fara um borð í erlend skip í efnahagslögsögunni vegna sakamálarannsókna og hefur aðeins í vel afmörkuðum undantekningartilfellum heimild til að hafa afskipti af erlendum skipum.

Júlíana segir í samtali við Fréttablaðið að dómaframkvæmd er varðar slíkar löggæsluaðgerðir sé lítilfjörleg og erfitt sé að draga af henni víðtækar ályktanir. „Það eru tveir dómar frá 7. áratugnum, þar var um fiskveiðilagabrot að ræða. Þar reyndi helst á reglur um óslitna eftirför. Skipstjórar í því máli voru sakfelldir í sakadómi Ísafjarðar, en báðum málum var vísað frá Hæstarétti. Ekki var fallist á að reglur um óslitna eftirför ættu við og var niðurstaða sú að íslenskir dómstólar hefðu ekki lögsöguvald til að leggja efnislega mat á dóminn. Það má því vera að sömu sjónarmið eigi við í máli Thomasar,“ segir Júlíana.

Hún segir varnir Thomasar snúast um að hann hafi verið handtekinn af íslenskum lögreglumönnum, utan íslenskrar lögsögu. En í niðurstöðum ritgerðarinnar leiðir hún líkur að því að handtakan hafi verið ólögmæt vegna þess að skipið hafi verið komið inn í íslenska efnahagslögsögu, en hafi verið utan íslenskrar landhelgi.

Hún veltir því einnig upp í ritgerðinni hvort eini maðurinn, sem raunverulega hafi mátt handtaka Thomas um borð, hafi verið skipstjórinn. En þeir fá ýmsar valdheimildir til að viðhalda frið og reglu um borð í skipum sínum. Júlíana telur því að mögulega komist Landsréttur ekki hjá því að vísa málinu frá í heild sinni.

„Það er hins vegar ekki sjálfgefið að málinu verði vísað frá Landsrétti, þar sem skipið var ekki þvingað til hafnar, heldur tók skipstjórinn um það sjálfstæða ákvörðun. Það er því hugsanlegt að Landsréttur leggi það til grundvallar að völdin hafi ekki verið tekin af honum og skipið ekki þvingað til lands. Skipstjórinn sigldi sjálfviljugur til Íslands og gera má því ráð fyrir að Thomas hefði verið handtekinn hvort eð er. Það er því einnig líklegt að Landsréttur telji handtökuna ekki svo veigamikið brot á alþjóðareglum að varði frávísun málsins. Hefði hann, sem dæmi, ekki bara verið handtekinn um borð heldur líka fluttur til landsins með þyrlunni eða öðrum hætti, hefði málið litið öðruvísi við og frávísun verið nokkuð borðleggjandi,“ segir Júlíana.

Thomas situr í gæsluvarðhaldi og bíður þess að málið fari fyrir Landsrétt Fréttablaðið/Anton Brink

Fylgdist vel með málinu frá upphafi

Júlíana segir að hún, eins og þorri þjóðarinnar, hafi legið yfir þessu sorglega máli og fylgst vel með rannsókn þess frá fyrsta degi. „Ég sat tímunum saman og las fréttir sem bárust og þá sérstaklega þegar bein útsending frá aðalmeðferð málsins fór fram á fréttamiðlum í ágúst síðastliðinn.“

Júlíana segir að þrátt fyrir að hún hafi ekki verið búin að kynna sér þjóðarréttinn mjög vel á þessum tíma, fyrir utan eitt námskeið, þá hafi henni þótt mjög áhugaverður sá angi málsins sem laut að lögmæti handtökunnar.

„Þegar dómur héraðsdóms Reykjaness lá fyrir þann 29. september var umræddur ágreiningur afgreiddur í mjög svo stuttu máli og mér þótti athyglisvert að héraðsdómur skyldi ekki reifa með ítarlegri hætti sjónarmiðin um lögmæti handtökunnar, í annars afskaplega löngum dómi. Dómurinn er um 50 blaðsíður og þetta voru þrjá línur sem fjölluðu um lögmæti handtökunnar og endað á því að segja að ekki yrði leyst úr því álitamáli þar. Þótt maður þekki kannski ekki mjög vel til hvernig er farið að svona fyrir dómstólum, þætti manni alveg rétt að það væri rökstutt betur,“ segir Júlíana.

Þegar kom að því að velja efni fyrir BA ritgerð sína var hún því ekki lengi að ákveða sig, þegar hún sá að til boða stóð að fjalla um á sviði refsiréttar að skrifa um forráðasvæðisreglu 4. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

„Þar sá ég kjörið tækifæri fyrir mig til að kafa dýpra í það álitaefni sem sneitt hafði verið fram hjá í héraðsdómi og kynna mér betur reglur íslensks réttar, sem og þjóðaréttar þar að lútandi og velta upp líklegum niðurstöðum þessa álitaefnis fyrir Landsrétti.“

Júlíana segir að lögsaga sé eitt af kjarnaatriðum refsiréttar og hún hafi mikinn áhuga á því að velta fyrir sér ýmsum spurningum um lögsögu og útilokar ekki að skoða það betur í meistaranáminu, sem hún hefur skráð sig í og mun hefja nám við í haust. 

Hún segir að hún hafi nýtt sér ýmsar áhugaverða heimildir frá fræðimönnum eins og bókina Criminal Jurisdiction sem Ragnheiður Bragadóttir, prófessor við HÍ, skrifaði grein í og greinina Lögsögulögvilla og miðlínumisskilningur eftir Bjarna Má Magnússon, doktor í Hafrétti, sem birtist í tímariti Lögréttu. 

Júlíana segir að við skrifin hafi hún einnig haft samband við þáverandi verjanda Thomasar, Pál Rúnar M. Kristjánsson,  sem hafi gefið sér til tíma að ræða við hana og gefið henni ágætis innsýn í málið.

„Spurningar um lögsögu eru áhugaverðar bæði út frá fræðilegu og praktísku sjónarhorni og er lögsagan alls ekki nýtt umfjöllunarefni þar undir en það reynir t.d. sífellt meira á lögsögu vegna tilkomu Internetsins,“ segir Júlíana í lokin. 

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Erlent

„Lífleg, tvítug kona með beittan húmor“

Dómsmál

Mál Møller Olsens fer fyrir Landsrétt

Innlent

Aug­lýsa eftir verslunar­manni í Ár­nes­hreppi

Auglýsing

Nýjast

Fyrir­skipa rann­sókn á hvernig 737-vélarnar fengu flug­leyfi

Fram­sýn slæst í för með VR og Eflingu

Síbrotamaður áfram í gæsluvarðhaldi

„Mér fannst ég gríðar­lega mis­heppnuð“

Fimmtíu fastir um borð í logandi farþegaflugvél

Þre­menningum sleppt úr haldi að lokinni skýrslu­töku

Auglýsing