Norska menningarblaðið, Morgenbladet, ræðir við Bergsvein Birgisson, rithöfund og fræðimann, um stóra ritstuldarmálið gegn Ásgeiri Jónssyni, seðlabankastjóra.

Bergsveinn segir að sér hafi brugðið þegar hann las bók Ásgeirs í samtali við norska blaðið.

Greint er ítarlega frá málinu í blaðinu þar sem sjónarhorn Bergsveins og Ásgeirs eru bæði tilgreind.

Í blaðinu segir að í opinberu svari Ásgeirs komi fram að þetta sé ekki ritstuldur heldur þekkt tilgáta sem hann setur fram í bók sinni, Eyjan hans Ingólfs.

Mögulega hafi hann gleymt tilvísunum

Aðspurður hvort það geti verið að Ásgeir hafi komist að sömu túlkunum sjálfur, segir Bergsveinn það ótrúlega tilviljun.

Bergsveinn bendir á að Ásgeir vitni í sömu heimildir og hann og túlki eins í mörgum tilfellum. Hann segir nokkrar þeirra vera eigin vangaveltur en segir Ásgeir vísa í þær eins og almennar staðreyndir.

Í greininni segir jafnframt að Ásgeir vísi aldrei í bók Bergsveins, Leitin að svarta víkingnum. Aðspurður hvers vegna Ásgeir hafi sleppt því að vísa í bókina segist Bergsveinn ekki vita það, mögulega hafi hann gleymt því.

Sú tilgáta eigi þó ekki við rök að styðjast lengur þar sem Ásgeir hafi ekki viðurkennt neitt.

Rætt er við Bergsvein í Morgenbladet um ritstuldarmálið.
Mynd/Skjáskot úr blaðinu Morgenbladet

Málið gæti endað í Noregi

Í noska blaðinu segir einnig að málið sé komið á borð siðanefndar Háskóla Íslands. Verði málið ekki afgreitt þar muni Bergsveinn leita með málið til Noregs, þar sem bók hans er gefin út upprunalega.

Í lok greinarinnar segist Bergsveinn málið vera mikið prinsipp mál og að það þurfi að virða reglurnar.