Íslensk loðnuhrogn eru eftirsótt sem aldrei fyrr til sushi-gerðar, jafnt í Japan sem og á veitingastöðum um allan heim sem leggja áherslu á matargerð úr landi hinnar rísandi sólar.

Þetta þekkja útflytjendur á íslenskum fiskafurðum, á borð við Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, öðru nafni Binni í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum, en sá hinn sami framkvæmdastjóri eins öflugasta útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækis landsins segir það vera með ólíkindum hvað hrognaframleiðendur í Eyjum hafi náð sterkri markaðsstöðu vestra, einkum og sér í lagi á vesturströnd Bandaríkjanna.

„Ef menn setjast niður á sushi-stað á þessum slóðum má heita öruggt að allt að 70 prósent af því masago sem menn eru að neyta þar eiga uppruna sinn í Vestmannaeyjum,“ segir Binni, en masago er einmitt japanska heitið á loðnuhrognum sem þykja lostæti í japanskri matargerð fyrir nú utan að skreyta réttinn með ágengum og alla vega litum sínum.

Spyrja má hver ástæðan sé fyrir þessum einstaka árangri í útflutningi loðnuhrogna til margra bestu og viðurkenndustu sushi-staða í Vesturheimi. Og það stendur ekki á svari hjá Binna í Vinnslustöðinni í Eyjum. „Margra áratuga þróunarvinna okkar manna,“ svarar hann að bragði og vitnar í söguna.

Japanskir kaupendur loðnuhrogna hafi fyrir hálfri öld eða svo horft upp á fiskvinnslufólkið í Eyjum missa hrognin í gólfið. „Þeir sáu þarna mikil verðmæti fara í súginn og strengdu því kjötgrisju undir affallið af loðnunni sem tók þá á móti því sem út af féll. Þar með héldu menn eftir verðmætum sem áður höfðu skilað sér niður í ræsin.“

Þessi vakning hafi hrint af stað nýsköpun. Eyjamenn áttaðu sig ekki einasta á því að það þurfti að halda hrognunum til haga heldur urðu þau þeim mun verðmætari sem hreinsun þeirra batnaði.

„Og nú hjálpaði hraunið í Eyjum,“ útskýrir Binni. „Með því að bora tuttugu til þrjátíu metra ofan í hriplekt yfirborðið hér í Eyjum komu menn niður á ómengaðan og örveru­frían sjó sem reyndist kjörinn til að hreinsa hrognin.“

Hann kveðst vonsvikinn fyrir þær sakir að verkafólkið í Eyjum, um og upp úr gosi, hafi ekki fengið eitt klapp fyrir að þróa þessar hreinsunaraðferðir sem nú skili árangri á heimsvísu í útflutningi á masago frá eyjunni undan Íslandi á marga bestu sushi-staði vestanhafs og víðar um lönd.