Fiskmerki sem fannst óvænt í grálúðu á Hampiðjutorginu í sumar reyndist vera frá Kanada. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hafrannsóknastofnun.

Þar segir að þann 19. ágúst hafi stofnuninni borist fyrirspurn frá skipverja á Guðmundi í Nesi ER 13 um fiskmerki sem fannst í nýveiddri grálúðu. Merkið reyndist ekki vera frá stofnuninni en eftir að hafa haft samband við framleiðanda merkisins kom í ljós að eigandi þess væri frá Windsor-háskóla í Kanada.

„Það er ekki mjög algengt að svona merki finnist,“ segir Bjarki Þór Elvarsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun. „Þeir í Kanada voru að rannsaka mjög staðbundnar hreyfingar á grálúðum svo það kom á óvart að hún skyldi vera komin alla leið til Íslands.“

Að sögn Bjarka Þórs getur verið talsvert flakk á grálúðum þar sem dæmi þekkist um að þær fari alla leið frá Íslandi til Noregs. Merkta grálúðan sem veiddist við Hampiðjutorgið var um 68 sentimetrar við merkingu.

„Þetta er alveg fullorðin lúða sem er að ganga þarna á milli, sem er líka frekar sérstakt, því venjulega þá eru það yngri lúður, um 20-30 sentimetrar, sem eru á flakki,“ segir Bjarki Þór.