Fiskistofa neitar að verða við beiðni veiðifélaga Laxár í Aðaldal, Mýrarkvíslar og Reykjadalsár og Eyvindarlækjar um að banna netaveiðar í Skjálfanda. Sveitarfélagið Norðurþing lagðist gegn banninu.

„Við hörmum þessa niðurstöðu og afstöðu sveitarfélagsins í málinu,“ segir Jón Helgi Björnsson, líffræðingur á Laxamýri og formaður Veiðifélags Laxár í Aðaldal.

Að sögn Jóns Helga snerust athugasemdir veiðifélaganna aðallega um veiðar bæjarbúa á silungi í net í landi sveitarfélagsins úti fyrir Húsavík aðeins hálfan annan kílómetra frá ósum Laxár í Aðaldal. Þeim fylgi svokallaðar blóraveiðar á laxi sem þýði að lax endi í silunganetunum í stað þess að rata upp í vatnasvæði Laxár.

Jón Helgi segir veiðistofna í ánum standa veikt og því beiti menn sér á öllum sviðum. „Okkur þykir að hagsmunir sveitarfélagsins ættu að liggja í því að vernda þessa stofna og atvinnustarfsemina í kringum þá. Tilfellið er að það eru seldir fimm þúsund veiðidagar í Laxá og í vatnakerfi Laxár. Þannig að það eru miklir hagsmunir undir, bæði náttúrulegir og atvinnulegir.“

Eins og kom fram í Fréttablaðinu í maí mælti Hafrannsóknastofnun með netaveiðibanninu. Norðurþing sagði eignarrétt sjávarbænda skýran, lagðist gegn banni og boðaði málsókn yrði það sett á. Sambærilegt bann var sett í Faxaflóa 2015.

Fulltrúar Norðurþings sögðu úthlutanir veiðileyfanna bæði varfærnar og sjálfbærar. Alls væri um að ræða tíu lagnir. Bókaði skipulags- og framkvæmdaráð sveitarfélagsins að gögn Fiskistofu og veiðifélaganna væru bæði haldlítil og illa ígrunduð. „Þetta er eignarréttur sem er ekki hægt að taka af fólki,“ sagði Benóný Valur Jakobsson, formaður ráðsins, við Fréttablaðið í maí. Benti hann á að bann hefði ekki aðeins áhrif á jarðir í Norðurþingi heldur einnig í Tjörneshreppi.

Veiðiréttarhafarnir sögðu á allra vitorði að lax endaði í netunum. Byggðu þeir ósk sína um bann á ákvæði í lögum um lax- og silungsveiði sem gerir Fiskistofu kleift „að takmarka eða banna á tilteknum svæðum og um tiltekinn tíma veiði silungs samkvæmt grein þessari, ef slíkt er nauðsynlegt, til þess að tryggja fiskigengd í nærliggjandi veiðivötn,“ eins og segir í lögunum.

Samkvæmt samantekt á vefsíðu Landssambands veiðifélaga veiddist 401 lax í Laxá í Aðaldal í sumar sem er slakasta veiði frá upphafi skráningar frá 1975 að undanskildu árinu í fyrra er 388 laxar voru skráðir til bókar.

„Við munum nú gera kröfur á sveitarfélagið og Fiskistofu um að haft verði eftirlit með þessum netaveiðum og séð verði til þess að þarna sé ekki verið að stunda blóraveiðar á laxi,“ segir Jón Helgi Björnsson