Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vonast eftir skilvirkara eftirliti og aukinni framfylgni laga um fiskveiðar, með nýju frumvarpi um viðurlög. Meðal annars verður Fiskistofu fengin heimild til stjórnvaldssekta og eftirlits með drónum, sem er reyndar þegar hafið.

Löggjöfin er sett til þess að bregðast við skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu frá árinu 2018.

„Sú þróun hefur átt sér stað í stjórnsýslunni að eftirlitsaðilum hefur verið fengin heimild til að beita refsikenndum viðurlögum eins og stjórnvaldssektir eru. Það eru annars konar heimildir og snúa ekki eingöngu að því að beina aðilum á réttar brautir heldur að beita viðurlögum fyrir brot sem þegar hafa átt sér stað,“ segir í svari við fyrirspurnum Fréttablaðsins.

Fiskistofa getur þegar beitt dagsektum, áminningum og leyfissviptingum.

Frumvarpið verður sett á dagskrá Alþingis í vor en Fiskistofa byrjaði að nota drónana í janúar. Hafa smábátaeigendur kvartað yfir þeim og sagt að eftirlitið beinist fyrst og fremst gegn þeim en ekki stóru skipunum.

Samkvæmt svari ráðuneytisins mun frumvarpið ekki aðeins gera eftirlitsmönnum kleift að nota dróna heldur einnig langdræga sjónauka og fleiri eftirlitstæki og fylgjast með stærra svæði.

Við spurningunni um hvort verið sé að breyta eðli Fiskistofu segir ráðuneytið að frekar sé um áherslubreytingu að ræða til þess að stofnunin ráði við þau verkefni sem henni eru falin. „Fiskveiðistjórnarkerfið byggir á nokkrum lagabálkum og telur ráðuneytið eðlilegt að samræma úrræði og viðurlög þeirra laga sem fjalla um fiskveiðistjórn og fylgja þeirri þróun í stjórnsýslunni að færa Fiskistofu sterkari heimildir til eftirlits og viðurlaga