„Við erum afar ánægð með sumarið. Íslenskir ferðamenn hafa sem betur fer bætt upp það hrun sem hefur orðið í komu erlendra ferðamanna,“ segir Inga Sigurðardóttir, sem rekur verslunina og veitingastaðinn Skerjakollu á Kópaskeri, ásamt manni sínum Guðmundi Baldurssyni.

Óhætt er að segja að þau hjónin hafi puttann á púlsinum varðandi ferðaþjónustu bæjarins því Skerjakolla er með einokunarstöðu á markaðinum á Kópaskeri svo notuð séu orð Ingu.

„Við erum búin að vera með þennan rekstur í sex ár og hingað hafa aðallega komið erlendir ferðamenn. Við höfðum því talsverðar áhyggjur af sumrinu en þær reyndust óþarfar,“ segir Inga.

Hún segist ekki hafa undan að steikja fiskibollur á veitingastaðnum. „Þær eru orðnar heimsfrægar og birtust í einhverri ferðabók. Hingað hafa komið erlendir ferðamenn og sagst vilja fiskinn í bókinni. Þær eru búnar til úr fiski sem er spriklandi að morgni dags og það kunna útlendingar og Íslendingar vel að meta,“ segir Inga.

Frægt er fárviðrið sem myndaðist þegar leikkonan Þórdís Björk Þorfinnsdóttir lét í gríni miður falleg orð um Kópasker og Raufarhöfn falla í sumar. Inga segist fullviss um að það skýri ferðamannastrauminn að hluta. „Það minnast margir gestir á það mál. En svo held ég líka að margir Íslendingar séu í fyrsta skipti í löngu sumarfríi hérlendis og vilji skoða staði sem þeir hafa ekki heimsótt áður.“