Einn skipverji var um borð í litlum fiskibát sem varð alelda skammt norður af Hellissandi laust fyrir klukkan hálf tíu í morgun, honum varð ekki meint af.

Tilkynning barst Landhelgisgæslunni frá vegfaranda í landi og sást þá mikill reykur frá bátnum og eldtungur.

Ekki náðist neitt samband við bátinn, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni, sem var staddur um fimm sjómílur frá landi.

Landhelgisgæslan kallaði út til skipa og báta á svæðinu að láta vita af sér og óskaði eftir því að þau héldu að brennandi bátnum ásamt því að kalla út björgunarsveitir og þyrlu gæslunnar á hæsta forgangi.

Rétt fyrir klukkan tíu tilkynnti fiskibáturinn Didda að hún hefði bjargað manninum úr gúmmíbjörgunarbáti sem var á reki skammt frá brennandi bátnum. Maðurinn var ómeiddur og var þá þyrlu gæslunnar snúið við en björgunarsveitir héldu áfram á vettvang.

Samkvæmt tilkynningu Landhelgisgæslunnar bárust engin neyðarboð frá bátnum sem bendir til að atvikið hafi borið mjög brátt að.
Manninum var komið um borð í björgunarskipið Björgu frá Rifi og vinnur áhöfn skipsins núna að slökkvistörfum við brennandi bátinn.