Ameríska bílafyrirtækið Fiskers hefur sýnt hvernig næsti raf bíll merkisins muni líta út með því að birta mynd af bílnum sem kallast Project Ronin. Bíllinn er hannaður í Bretlandi og verður frumsýndur í ágúst á næsta ári. Eins og sjá má er bíllinn mjög sportlegur með löngu húddi, ávölum framenda og mikið afturhallandi framrúðu. Sjá má myndavélarspegla og það vottar fyrir samskeytum við aftasta hluta farþegarýmis sem bendir til þess að um fjögurra dyra bíl sé að ræða. Fiskers er að þróa fjóra nýja bíla fyrir árið 2025 og er Project Ronin líklega sá fyrsti af þeim. Að sögn Fiskers mun Ronin verða með sérstökum hliðarhurðum sem eiga að auðvelda mjög aðgengi. Hvort að það þýði öfugar afturhurðir á þó eftir að koma í ljós. Eitt af markmiðunum með þessum bíl er líka að kynna bíl með lengsta drægi rafbíla og hefur markið verið sett á meira en 890 km drægi. Bíllinn mun kosta um 26 milljónir króna þegar hann kemur á markað seinni hluta ársins 2024.