Daninn Henrik Fisker er ekki að baki dottinn við bílaþróun sína og boðar nú komu langdrægs og fremur ódýrs rafmagnsbíl. Bíllinn á að kosta ekki meira en 40.000 dollara og komast 650 kílómetra á fullri hleðslu. Það mun gera þennan bíl samkeppnishæfan við Tesla Model 3 bílinn og langdrægari að auki. Þessi bíll á að vera í jepplingaformi, verða smíðaður í Bandaríkjunum og koma á markað árið 2021. Meiningin er að selja nokkur hundruð þúsund eintök af bílnum á hverju ári. Að stærð mun hann liggja á milli bílanna BMW X3 og komandi Tesla Model Y bíls. Hann á að verða mjög framúrstefnulegur útlits.

Með 2,5 sinnum meiri geymslugetu

Þessi nýi og ódýri rafmagnsbíll Fisker er ansi langt frá verði síðasta bíls sem Fisker boðaði, þ.e. Fisker EMotion sem kynntur var fyrir um ári síðan með verðmiðann 129.000 dollarar. Fisker er nú að taka á móti pöntunum í þann bíl á vefsíðu sinni með 2.000 dollara fyrirframgreiðslu. Svo gæti þó farið að ódýri rafmagnsbíllinn komi fyrr á markað en sá dýri því áhersla Fisker hefur snúist meira til framleiðslu hans. Fisker hefur sótt um ein 15 einkaleyfi á nýjum rafhlöðum sínum sem eru með 2,5 sinnum meiri geymslugetu rafmagns en hefðbundnar lithium-ion rafhlöður. Fisker segir að fullhlaða megi þessar rafhlöður á svo litlum tíma sem 10 mínútum.