„Aldrei nokkurn tímann hefði ég trúað því að ná­kvæm­lega ári eftir fall WOW air væri nánast hvert einasta flug­fé­lag í heiminum á barmi gjald­þrots og að leita á náðir ríks­valda um ríkis­að­stoð með einum eða öðrum hætti,“ svona hefst pistill sem Skúli Mogen­sen, fyrr­verandi for­stjóri WOW air, birti á Face­book síðu sinni í kvöld.

Hann segir að það hafi varla liðið sá dagur allt síðasta ár þar sem hann hefur ekki spurt sjálfan sig hvað hann hefði getað gert betur eða öðru­vísi til að tryggja á­fram­haldandi rekstur WOW air.

„Margir hafa spurt mig undan­farna daga hvort ég sé ekki feginn að vera ekki enn þá í þessum blessaða flug­rekstri í þessum ólgu­sjó að heyja líf­róður enn eina ferðina en stað­reyndin er sú að ég vildi hvergi annars staðar vera. Vissu­lega er flug­rekstur krefjandi og að­stæður nú engu líkar og ég finn virki­lega til með mínum fyrr­verandi kollegum út um allan heim þessa dagana sem eru án efa að leggja nótt við dag í að bjarga sínum fé­lögum líkt og við gerðum fyrir ári síðan og ég vona inni­lega að það takist.“

Hann segir að allir fyrr­verandi kollegar hans eiga heiður skilið fyrir að standa vaktina því það er til mikils að vinna, sér­stak­lega hér á Ís­landi þar sem ferða­þjónustan er orðin hryggjar­stykkið í ís­lensku at­vinnu­lífi. „Við erum ey­land og senni­lega hefur aldrei verið jafn aug­ljóst og nú hversu mikil­vægar al­þjóð­legar tengingar og sam­göngur eru fyrir þjóðar­búið,“ ritar hann jafn­framt.

Gleymum okkur ekki í smáatriðum og fyrirsögnum dagsins

Skúli hvetur jafnframt fólk til þess að gleyma sér ekki um of í smá­at­riðum og fyrir­sögnum dagsins við nú­verandi að­stæður heldur sé nauð­syn­legt að horfa á stóru myndina. „Þá stað­reynd að Ís­land er ein­stakt land með magnaða náttúru, sögu, menningu, fólk og margar af helstu auð­lindum fram­tíðarinnar svo sem víð­áttu, hreina orku, hreint vatn og loft, fiskinn í sjónum, jafn­rétti og grunn­stoðir sem á heildina litið virka mjög vel eins og við sjáum þessa dagana.“

Í niðurlagi pistilsins segist hann stoltur af því fyrir­tæki sem WOW air var og að eina eftir­sjáin er að hafa ekki getað gert meira til að bjarga því.

„Ég er ó­hemju stoltur af því sem við byggðum upp hjá WOW air og hvernig við áttum þátt í því að reisa við Ís­land eftir fjár­mála­hrunið og skapa þúsundir starfa og tugi milljarða í gjald­eyris­tekjur fyrir þjóðar­búið. WOW air var ein­stakt fyrir­tæki með gríðar­lega öflugu starfs­fólki sem stóð þétt saman og ég sakna þeirra á hverjum einasta degi. Eina eftir­sjá mín er að hafa ekki getað gert meira til að bjarga fé­laginu. Farið vel með ykkur og stöndum vörð um hvert annað,“ ritar Skúli.