Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, lagði í gær fram frumvarp á Alþingi um afglæpavæðingu neysluskammta vímuefna. Þetta er í fjórða skipti sem frumvarpið er lagt fram.

„Ég veit að jarðvegurinn er frjórri úti í samfélaginu, því að eins og skoðanakannanir hafa sýnt þá er viðhorf almennings gjörbreytt,“ segir Halldóra. „Við sjáum að þar er meira en 60 prósenta stuðningur við að hætta að refsa vímuefnanotendum.“

Halldóra segist þó ekki finna fyrir sama stuðningi á þinginu eftir umræðurnar í gær, þar sem sumir þingmenn séu á sama stað og fyrir tveimur árum.

„Þeir segjast ekki getað samþykkt þetta frumvarp án þess að fara í heildarendurskoðun á málaflokknum,“ segir hún. „Við erum með flokka saman í ríkisstjórn sem hafa haft fimm ár til þess en það gerist ekkert.“