COVID-19 faraldurinn hefur haft í för með sér slæm efnahagsleg áhrif og hafa fjölmargir Íslendingar fundið fyrir faraldrinum fjárhagslega. Bjarni Baldvinsson, betur þekktur sem Bjarni Töframaður, er einn þeirra sem hefur lent afar illa í faraldrinum en nær allar tekjulindir hans hafa þornað upp á síðustu mánuðum.

Samhliða töframennskunni hefur Bjarni verið í barrekstri, séð um leiðsögn fyrir ferðamenn ásamt því að taka að sér veislustjórnun en allar atvinnugreinarnar sem um ræðir hafa tekið mikið högg síðustu mánuði.

„Þetta er ekkert grín. Þetta er bara búið að vera rosalega skrýtið hvernig allt í einu hvarf fullt af „giggum“ sem voru tilbúin fyrir mann í mars og apríl. Það er sá tími sem býr til tekjurnar fyrir sumarið hjá manni, svo var því öllu frestað. Á sama tíma var ég í barrekstri og það lokaði allt saman. Ég hef einnig verið í ferðamannabransanum og það hætti einnig allt saman,“ segir Bjarni.

„Ég greinilega valdi mjög „ó-covid væna“ hluti til þess að starfa við,“ segir hann enn fremur.

Þrjár skemmtanir í súginn um helgina

Hertar samkomubannsreglur tóku gildi í hádeginu í dag og hafa þær leikið listamenn og skemmtikrafta sem voru mikið bókaðir um helgina grátt. Bjarni átti að sýna töfrabrögð víðs vegar um landið en ekkert verður úr því.

„Það er allt farið. Ég átti að vera með þrjár skemmtanir núna um helgina. Við vorum farin að skoða það að geta verið með einhverja útgáfu af einni þeirra. En svo hafði sveitarstjórnin þar sem skemmtunin átti að vera, samband við alla mótshaldara sem voru á þessu svæði og báðu þá um að hætta við allar skemmtanir,“ segir Bjarni.

Spurður um hvort ekki hafi verið hægt að halda einhverjar skemmtanir fyrir 100 manns eða færri segir hann nauðsynlegt fyrir alla að hafa varann á. „Um leið og þú setur upp einhverjar skemmtanir á svona fámennum stöðum og auglýsir það, þá koma líklegast fleiri heldur en æskilegt er.“

Bjarni er skemmtikraftur af líf og sál.
Ljósmynd/aðsend

Íhugar „venjulega vinnu“ eftir 25 ár sem skemmtikraftur

Þrátt fyrir að útlitið sé svart segist Bjarni skilja ákvörðun yfirvalda um þessar mundir. Hann segir hins vegar að samskipti sín við Vinnumálastofnun hafa verið erfið vegna starfsvals.

„Ég skil fullkomlega að þetta leggist hart á okkur en það er svo erfitt fyrir okkur sem erum bara í þessu. Því allt í einu hefur maður engar tekjur og svo fer maður að tala við Vinnumálastofnun og það eru engar lausnir hjá þeim því í þeirra augum er ekki til neitt sem heitir skemmtikraftur sem vinnur í fullri vinnu. Það er litið á þetta sem eitthvað áhugamál og við eigum bara að vera í „venjulegri vinnu“ annar staðar. Ég lít bara á það að vera skemmtikraftur sem venjulega vinnu því þetta er það sem er búið að framfleyta mér síðustu 25 árin.“

Hann vonast til þess að núverandi lokanir og samkomubann þurfi ekki að vara lengi en bendir á að við þurfum öll að vera undirbúin undir það að ástandið gæti varað lengi. „Ég er kominn á þann stað í dag að ég er í alvörunni að hugsa um það að fá mér „venjulega vinnu“ sem tengist háskólagráðunni sem ég tók,“ segir Bjarni sem er jafnframt menntaður tæknifræðingur.

Ábyrgðarleysið er það sem angrar fólk

Fjölmargir listamenn helltu úr skálum reiði sinnar á samfélagsmiðlum í gær enda mikið tekjutap sem felst í því að þurfa fresta viðburðum. Bjarni telur hins vegar flesta vera ósátta við ábyrgðarleysið sem olli því að veiran fór af stað að nýju.

„Ég held að það sem flestir eru ósáttir við í dag af þeim tónlistarmönnum og skemmtikröftum sem ég hef talað við, sé að fólkið sem fékk það ferðafrelsi til þess að fara á milli landa hafi ekki sýnt þá ábyrgð þegar það kom aftur heim að virða það að passa sig aðeins og fara ekki strax af stað að hitta alla vini sína,“ segir Bjarni.