Áður fyrr var eigin­lega ekkert til nema kinda­kjöt og það var líka borðað á jólunum,“ segir Unnur Jóhannes­dóttir, lista­kona og hús­móðir, spurð að því hvernig jólin hafi verið þegar hún var lítil.


Unnur er fædd í Reykja­vík árið 1929 sem gerir hana 92 ára gamla. „Á jólunum var borðað læri og hangi­kjöt og svo var sveskju­grautur í eftir­rétt. Ég man vel eftir því þegar ég var svona sex ára og pabbi keypti tré­kassa fullan af sveskjum fyrir jólin,“ segir Unnur.

„Ég man líka vel eftir eplum í stórum tunnum þegar ég var enn yngri, ekki nema kannski fimm ára, ég finn enn þá lyktina af þeim.“

Unnur á tvær yngri systur og minnist jólanna heima hjá sér með mömmu sinni, pabba sínum og systrunum. „Svo man ég eftir því að farið var að bjóða í jóla­boð. Mamma mín átti tvær systur og þær skiptust á að bjóða í boð á jóla­dag eða á annan í jólum,“ segir Unnur.

„Þá var búið að baka svamptertur, rjóma­tertur og allt milli himins og jarðar. Svo voru náttúru­lega alltaf bakaðar smá­kökur eins og í dag,“ bætir Unnur við og minnist þess að þegar hún var barn hafi ekki verið í boði að borða smá­kökurnar fyrr en á sjálfum jólunum.

„Ég hef alltaf leyft mínum börnum að borða kökurnar í desember,“ segir Unnur sem alla tíð hefur bakað fjöldann allan af smá­köku­sortum fyrir jólin. „Eigin­lega bara alveg þangað til núna.“

Þegar Unnur var lítil fékk hún læri í matinn á jólunum. Í desert var sveskjugrautur með rjóma.
Fréttablaðið/Eyþór

Lærði mynd­list átt­ræð


Spurð að því hvort hún eigi sér minningar um jóla­gjafirnar frá því hún var lítil segist Unnur ekki mikið muna eftir því hvað var í pökkunum. „Auð­vitað fengum við ein­hverjar jóla­gjafir, ég held að það hafi helst verið bækur,“ segir Unnur sem hefur alla tíð notið þess bæði að lesa og leysa kross­gátur.

„Land­læknir sagði ein­hvern tímann að gamla fólkið ætti að vera í kross­gátum, það væri gott fyrir heilann. Ég var löngu byrjuð á því áður en ég varð gömul og ætli það hafi ekki haft ein­hver á­hrif,“ segir Unnur.

„Ég man mjög vel eftir því að mamma gaf okkur alltaf sumar­gjöf. Þegar ég var fimm ára fékk ég æðis­lega striga­skó.“

Unnur man vel eftir því að hafa gengið Grettis­götuna árið 1934 í fínu striga­skónum þegar skórnir slitnuðu. „Þetta var svona band yfir ristina og tala. En ég fór bara inn til skó­smiðsins á Grettis­götunni og bað hann að laga þá fyrir mig og það gerði hann, festi töluna fyrir mig,“ segir hún og skelli­hlær.

„Auð­vitað fengum við ein­hverjar jóla­gjafir, ég held að það hafi helst verið bækur.“

Unnur giftist Vali Jóhannes­syni prentara þegar hún var rúm­lega tví­tug og saman eignuðust þau fjögur börn. Unnur vann að mestu heima, sinnti börnum og búi, en seinna hóf hún störf við ræstingar í Há­skóla Ís­lands þaðan sem hún ber sam­starfs­fólki sínu afar vel söguna.

Unnur hefur alla tíð haft mikinn á­huga á ýmiss konar hand­verki. Hún prjónar mikið og nýtur þess að mála. Heimili hennar er skreytt fal­legum mál­verkum sem hún hefur málað.

„Mér hefur alltaf þótt gaman að mála og ég fór í mynd­listar­skóla með Trausta syni mínum þegar ég var rúm­lega átt­ræð.“

Mynd­list var ekki það eina sem Unnur lærði eftir að hún varð full­orðin en hún tók bíl­próf þegar hún var á sex­tugs­aldri. „Við áttum aldrei bíl. Hvorki við fjöl­skyldan né mamma mín og pabbi svo ég labbaði bara allt sem ég þurfti að fara alla tíð,“ segir Unnur sem þakkar göngunum háan aldur sinn líkt og kross­gátunum.

„Svo tók ég bíl­prófið þegar ég var fimm­tíu og eitt­hvað ára og ég sagði engum frá því að ég væri að gera það. Ekki einu sinni börnunum mínum,“ segir Unnur. „Ég á­kvað bara að prófa hvort ég gæti það og var ekkert að segja frá því, svo bara þagði ég alveg þangað til ég var búin.“

Þegar Unnur var rúmlega fimmtug tók hún bílpróf, hún sagði engum frá því að hún væri að læra á bíl og kom öllum á óvart þegar prófið var komið í hús.
Fréttablaðið/Eyþór

Margt breyst með árunum


Unnur segir að þegar hún var lítil hafi allt í kringum jólin verið ró­legra en það sé nú. Mesta breytingu segist hún sjá í mat og gjöfum til barnanna. „Mér finnst börn vera að fá allt of mikið,“ segir hún.

„Ég held að þetta geri þeim ekkert gott. Það er eins og krakkar í dag fæðist eldri, þau eru svo þroskuð fljótt og það er gaman að þeim en ég held að þau fái of mikið,“ segir Unnur sem á fjögur börn, þrettán barna­börn og bráðum 23 barna­barna­börn.

„Ég gef þeim öllum jóla­gjafir, nema barna­börnunum sem eru búin að eignast börn sjálf, þá gef ég barna­barna­börnunum. Ég safna alls konar litlum dollum allt árið og mála þær og set pening ofan í. Ég er alveg hætt að kaupa eitt­hvað handa þeim því þau eiga allt og vantar ekkert.“

Eftir að Unnur fór að búa og eignaðist börn prjónaði hún mikið á krakkana og saumaði, til dæmis alla jóla­kjóla á dætur sínar tvær. „Svo skal ég nú segja þér eina skemmti­lega sögu,“ segir Unnur.

„Einu sinni keypti sonar­sonur minn sér íbúð og í henni voru flauels-gardínur sem hann ætlaði ekki að nota. Ég segi mömmu hans að gefa mér gardínurnar og úr þeim saumaði ég sjö kjóla,“ segir hún.

„Svo fór Júlía, dóttur­dóttir mín, á jóla­ball og kennarinn segir henni hvað hún sé í voða­lega fal­legum kjól. Þá segir hún: Amma saumaði hann upp úr gardínum. Mér finnst þetta svo frá­bært og fyndið,“ segir Unnir hlæjandi.

„Ég segi mömmu hans að gefa mér gardínurnar og úr þeim saumaði ég sjö kjóla.“

Gott að vera í galla­buxum


Þrátt fyrir að hafa saumað fjöl­marga kjóla í gegnum tíðina segist Unnur sjálf aldrei hafa verið að­dáandi þess að ganga í kjólum. „Þegar ég var með krakkana litla þá voru allar konur í sokka­buxum og kjól eða pilsi en ég var í galla­buxum,“ segir hún.

„Það var ekki vana­legt og þótti ekki fínt en mér fannst það þægi­legt. Svo komst ég að því seinna að yngri dóttur mína langaði svo að eiga mömmu sem væri feit með svuntu en ég var svo mjó og gekk í buxum, þau skömmuðust sín of­boðs­lega fyrir klæða­burðinn, krakkarnir,“ segir Unnur og skellir upp úr.

Að­spurð að því hvað hafi breyst þegar kemur að mat á jólunum segir Unnur það vera úr­valið. „Ég man til dæmis eftir því þegar ég eldaði svína­kótelettur í fyrsta sinn, þá vissi ég ekkert hvernig ég ætti að gera það,“ segir Unnur.

„Ég sendi þá manninn minn niður í Naust og lét hann spyrja hvernig ætti að elda svona mat og hann fór og ég fékk upp­skriftina, það reddaði mér og síðan hafa svína­kótelettur verið í of­boðs­lega miklu upp­á­haldi hjá krökkunum mínum,“ segir hún.

„Ég man líka eftir því þegar hús­mæður fóru að elda hænur, áður en kjúk­lingarnir komu, en þær gáfust fljótt upp því þær voru svo seigar.“

Unnur hefur alltaf verið mikið jóla­barn og þar til fyrir tveimur árum tók hún á móti öllum sínum af­kom­endum á jóla­dag í aspars­súpu, hangi­kjöt og frómas. Hún býr enn á heimili sínu í Vestur­bænum og er af­skap­lega hress þrátt fyrir háan aldur.