Bandaríska geimferðarstofnunin, NASA, birti í gær myndir úr James Webb-stjörnusjónaukanum sem sýna plánetuna Neptúnus í nýju og mögnuðu ljósi.

Geimsjónaukanum var skotið á loft á jóladag í fyrra og er hann þegar farinn að safna dýrmætum myndum sem varpa meðal annars ljósi á myndun stjarna og sólkerfa. Á myndunum sem NASA hefur nú birt má meðal annars sjá hringakerfi plánetunnar – sem minnir um margt á hringakerfi Satúrnusar – nokkuð skýrt.

Ein af uppáhaldsmyndunum

„Það eru liðnir þrír áratugir síðan við sáum þessa daufu hringi en þetta er í fyrsta sinn sem við sjáum þá í innrauðu ljósi,“ segir Heidi Hammel, stjörnufræðingur og einn þeirra vísindamanna sem hefur umsjón með James Webb-sjónaukanum, í samtali við CNN.

Sævar Helgi Bragason, rithöfundur og stjörnufræðikennari, gerði myndirnar að umtalsefni á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi þar sem hann sagði að myndin sem birtist hér að neðan væri þegar orðin ein uppáhaldsmyndin hans af sólkerfinu.

Mögnuð mynd sem James Webb-geimsjónaukinn náði. Sjónaukanum var skotið á loft þann 25. desember í fyrra.
Mynd/NASA

„Þetta er hið hrollkalda veðravíti Neptúnus eins og hann birtist Webb geimsjónaukanum. Þarna í myrkviðum sólkerfisins er álíka bjart á hádegi og á þungbúnu síðdegi á Jörðinni. Meira en 200 stiga frost og gusturinn stundum rúmir 500 metrar á sekúndu. Það er nánast eins og Neptúnusi sé plantað á myndina.“

Ský á stærð við jörðina

Sævar, sem er einn okkar helsti fræðingur um geiminn, segir að metanið í andrúmsloftinu á Neptúnus gleypi sólarljósi svo hann sýnist hálf dimmur og dökkleitur.

„Björtu blettirnir í andrúmsloftinu eru ský á stærð við meginlönd á Jörðinni. Ískristallar í þeim spegla sólarljósinu og eru þess vegna svona björt.“

Hann segir að á myndinni sjáist nokkur tungl og er eitt þeirra Tríton, stærsta tungl Neptúnusar, sem virkar ægibjartur eins og stjarna.

„Tríton er álíka hvítur og snjór. Enda þakinn snjó úr köfnunarefni. Hann speglar meira en helmingi sólarljóssins sem fellur á hann. Þessi skrítni ættingi Plútós hætti sér of nærri Neptúnusi fyrir langa löngu og festist á braut um plánetuna. Kannski urðu hringarnir til þá, þegar Tríton hristi upp í tunglunum sem ganga um Neptúnus svo sum þeirra rifnuðu í tætlur.

Tríton gengur öfugan hring um Neptúnus og mun á endanum splundrast í milljarða mola. Þá verður til bjartur íshringur um Neptúnus, svipað og Satúrnus skartar.“

Sævar segir þó að fallegast þyki honum hvernig Neptúnus svífur fyrir framan aragrúa órafjarlægra vetrarbrauta.

„Á myndinni eru tugir ef ekki hundruð slíkar. Neðarlega sést bjálkþyrilvetrarbraut svipuð þeirri sem við búum í. Nema þessi birtist okkur úr 1,2 milljarða ljósára fjarlægð

Sólkerfið okkar á sveimi í alheiminum. Finnst ykkur þetta ekki fallegt og merkilegt,“ spurði Sævar Helgi og er óhætt að segja að margir hafi tekið undir í athugasemdum.

Hér má sjá nærmynd af Neptúnúsi, hringunum og tunglunum. „Þetta er skýrasta mynd sem tekin hefur verið af hringunum síðan Voyager 2 flaug framhjá árið 1989 og fann hringana,“ segir Sævar í færslu sinni.