Hildur Lillien­dahl furðar sig á dómi Héraðs­dóms Reykja­víkur, sem komst í gær að þeirri niður­stöðu að um­mæli sem hún lét falla um tvo menn í tengslum við Hlíða­málið svo­kallaða skyldu teljast dauð og ó­merk. Hildur og önnur kona, Odd­ný Arnars­dóttir, voru báðar dæmar til greiðslu miska­bóta í gær fyrir um­mæli sín, en Hildur þarf að greiða hvorum manni 150 þúsund krónur og Odd­ný 220 þúsund krónur.

„Í gær komst ein­hver karl­dómari við héraðs­dóm Reykja­víkur að þeirri niður­stöðu að fjögurra ára gömul tjáning mín á Face­book (sem hann vill meina að hafi fjallað um tvo grunaða kyn­ferðis­of­beldis­menn) skyldi teljast dauð og ó­merk,“ skrifar Hildur á Face­book-síðu sína.

Í um­ræddri færslu gagn­rýndi Hildur að­gerðir lögreglu í máli þar sem tveir menn voru grunaðir um kyn­ferðis­brot í íbúð í Hlíða­hverfi í Reykja­vík. Hún for­dæmdi mennina tvo á sama tíma og saman skipu­lögðu hún og Odd­ný mót­mæli fyrir framan lög­reglu­stöðina á Hverfis­götu. Mál mannanna tveggja var á endanum fellt niður sökum þess að það þótti ekki lík­legt til sak­fellingar.

„Veit ekki alveg hvernig mér líður“

„Ég er rétt að byrja að melta þetta allt saman og veit ekki alveg hvernig mér líður. Alla­vega á ég að borga ein­hverju fólki milljón fyrir eitt­hvað sem ég skil ekki alveg,“ segir Hildur og segist ekki skilja dóminn. „Mér finnst ég hafa verið dæmd fyrir að standa með konum,“ bætir hún við, en þakkar á sama tíma fyrir allan þann stuðning sem hún hefur fengið – sér­stak­lega í kringum þetta til­tekna mál.

„Konurnar mínar. Þið sem bjugguð til hópana og þræðina og tókuð þátt í þeim, þið sem senduð mér ástar­játningar í tölvu­pósti, þið sem senduð skila­boð eða snöpp með stuðnings­kveðjum, þú þarna mamma sem ert að passa uppá mig akkúrat núna, þið ó­trú­legu konur sem verjið mig fyrir dóm­stólum, þú nagli allra nagla sem ert að standa í þessu drasli með mér (Ara­dóttir), þið allar sem sann­færið mig á hverjum degi um að ég sé réttu megin við línuna; takk. Takk takk takk. Konur eru það allra allra besta sem ég veit. Til hamingju með daginn,“ bætir Hildur við en færslu hennar í heild má lesa hér fyrir neðan.

Til allra (minna) kvenna á kvenréttindadaginn 19. júní 2019. Í gær komst einhver karldómari við héraðsdóm Reykjavíkur...

Posted by Hildur Lilliendahl Viggósdóttir on Tuesday, June 18, 2019