Helgi Hrafn Gunnars­son, þing­maður Pírata, segist standa við hvert orð í ræðu sinni um Birgittu Jóns­dóttur á fé­lags­fundi flokksins í vikunni, þrátt fyrir að orð hans hafi mörg hver verið særandi. Hann segist hafa talað bæði í hrein­skilni og ein­lægni en að þessum hlutum hafi hann þurft að koma á fram­færi.

„Mér finnst ég ekki á nokkurn hátt hafa gengið of langt. Ég sé ekki eftir einu einasta orði, tek ekki eitt einasta orð til baka. Ég var full­kom­lega hrein­skilinn og ein­lægur og stend við hvert einasta orð og fram­setninguna á því,“ segir Helgi Hrafn í sam­tali við Frétta­blaðið.

Líkt og greint var frá í gær fór Helgi Hrafn nokkuð ó­fögrum orðum um Birgittu á fundinum, þar sem verið var að kjósa í trúnaðar­ráð flokksins. Birgitta gaf kost á sér í ráðið en hafði ekki erindi sem erfiði; með 13 at­kvæði gegn 55. Vilja margir meina að Helgi hafi hrein­lega út­húðað Birgittu og að fundurinn hafi verið einn sá ljótasti í sögu Pírata.

Með­vitaður um að ræðan gæti ratað í fjöl­miðla

Upp­taka af fundinum rataði í fjöl­miðla í gær og segir Helgi að honum þyki það miður, fyrst og fremst Birgittu vegna, þó hann hafi verið með­vitaður um að upp­tökur gætu ratað í fjöl­miðla.

„Ég sagði allt á þessum fundi sem ég hafði að segja um at­kvæða­greiðsluna og þótt ég hafi haldið þessa ræðu full­kom­lega með­vitaður um það að hún gæti ratað í fjöl­miðla, og tók það fram í ræðunni, þá var ég samt að beina orðum mínum til flokks­með­lima. Það var ekkert ætlun mín að þessi um­ræða um Birgittu Jóns­dóttur færi í fjöl­miðla. Fyrir mér er þetta innnan­flokks­mál,“ segir Helgi.

Leiðin­legt að hafa valdið særindum

Nú hefur Birgitta lýst því að hafa verið sví­virt á þessum fundi og segist sár. Fær það eitt­hvað á þig?

„Mér þykir leiðin­legt að hún sé sár, en veistu, það þurfti bara að segja þessa hluti. Ef hún er sár yfir því þá er það bara hluti af því sem þurfti að gerast. Það er allt leiðin­legt við þetta. Ég er líka sár. Mér finnst þetta líka leiðin­legt. Mér hefur aldrei liðið jafn illa yfir að þurfa að halda ræðu í lífinu. Og mér finnst þetta allt saman ömur­legt frá upp­hafi til enda. En þarna þurfti að segja hluti sem voru ó­sagðir,“ svarar hann og bætir við að það hafi aldrei verið hans vilji að grafa undan Birgittu í sam­fé­laginu.

„Það sem ég gerði, gerði ég á eins hrein­skilinn og heiðar­legan máta og mér er unnt og ég met það þannig að það hafi ekki verið mikið val. Valið stóð á milli þess að þegja eða segja þessa hluti. Valið að þegja er ekki lengur í boði.“

Þykir þér verra að upp­tökunni hafi verið lekið?

„Nei nei það skiptir engu máli. Ég ber engan kala til neins sem tók þetta upp. Ég bara hefði ekki gert það sjálfur;“ segir Helgi að lokum.

Viljinn birti upp­tökuna í gær, en hana má sjá hér fyrir neðan.