Finnskur dómstóll réttar nú í Monróvíu, höfðuborg Líberíu, yfir Gibril Massaquoi sem sakaður er um stríðsglæpi. Massaquoi var finnskur þegn þegar hann var handtekinn í Tampere á síðasta ári fyrir glæpi framda í seinni borgarastyrjöldinni í Líberíu, árin 1999 til 2003, en hann er upprunalega frá Síerra Leóne.

Afar óvenjulegt er að dómstóll flytji sig um set til þess að rétta yfir þegnum sínum. Dómstóllinn mun einnig hafa viðveru í nágrannaríkinu Gíneu til þess að rannsaka vettvang og hlusta á vitnisburði. Réttarhöldin hófust á mánudag og munu standa yfir í tvo mánuði.

Alþjóðasamfélagið hefur þrýst á Líberíustjórn að halda sérstakan stríðsglæpadómstól vegna styrjaldarinnar, þar sem talið er að 250 þúsund manns hafi látist. Breiddist hún að einhverju leyti út til þriggja nágrannaríkja. Charles Taylor, forseti landsins á tímum styrjaldarinnar, var árið 2012 dæmdur til 50 ára fangelsisvistar af stríðsglæpadómstólnum í Haag.

Núverandi forseti, fyrrverandi knattspyrnumaðurinn George Weah, hefur hins vegar ekki lagt áherslu á að sækja stríðsglæpamenn til saka, heldur einbeita sér að efnahagslegri uppbyggingu. Það flækir einnig stöðuna að margir þátttakendur í stríðinu eru nú embættismenn eða kjörnir fulltrúar í landinu. Þá vilja líberísk yfirvöld ekki einu sinni viðurkenna að hinn finnski dómstóll sé í raun dómstóll.

„Það er ekki verið að flytja dómstól til Líberíu,“ segir Sayma Syernius Cephus ríkissaksóknari við franska ríkisútvarpið. Sagði hann það óleyfilegt og það sem væri verið að gera í raun rannsókn. Massaquoi er meðal annars sakaður um morð, nauðganir og að senda barnunga hermenn út á vígvöllinn. Hann var sendur til Finnlands árið 2008 eftir að hafa gegnt stöðu vitnis í stríðsglæpadómstól í Síerra Leóne.