Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra tók þátt í sameiginlegum fundi aðildarríkja í Atlantshafsbandalaginu í Búkarest. Fundurinn markaði tímamót þar sem þetta var í fyrsta sinn sem Finnland og Svíþjóð sátu allan fundinn en sem umsókn þeirra um aðild að bandalaginu er nú í vinnslu.

„Þetta er fyrsti fundurinn þar sem bæði ríkin sitja allan fundinn en ekki bara hluta hans eins og stundum er gert þegar það koma gestir. Það eru ákveðin tímamót að öll Norðurlöndin séu að verða hluti af Atlantshafsbandalaginu og því taka Eystrasaltsríkin líka mjög alvarlega vegna þess að sú staðreynd eykur öryggi svæðisins í heild sinni,“ sagði Þórdís Kolbrún um þennan sögulega fund.

Enn ríkir samhugur

Aðspurð sagði Þórdís Kolbrún að fundurinn í dag hefði verið algerlega tileinkaður Úkraínu og hún sagði mikinn samhug í aðildarríkjum.

„Ég myndi segja að andrúmsloftið er á þann veg að það er sameiginlegur tónn frá öllum ríkjum um algera fordæmingu á háttsemi Rússa, stríðsrekstri þeirra og núna hvernig þeir sjálfir ákveða að færa stríðið á ómanneskjulegra stig með því að skjóta niður og skemma innviði sem verða að vera í lagi svo saklaust fólk getir haldið á sér hita og fengið rennandi vatn,“ sagði Þórdís Kolbrún en hún fór í gær til Kænugarðs ásamt ráðherrahópnum og hitti þar meðal annars Volodímír Zelenskíj, forseta Úkraínu.

Þórdís Kolbrún sagði fundinn fyrst og fremst snúast um almennar umræður og væri ekki ákvörðunarfundur „En vissulega nota lönd alla jafna svona tækifæri til að tilkynna og fara sérstaklega yfir viðbótarstuðning,“ sagði Þórdís Kolbrún en núna í kvöld fer fram vinnukvöldverður þar sem sérstakur gestur er Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu en hann ferðaðist með ráðherrahópnum yfir til Búkarest.

„Það að hann hafi verið með okkur gerir honum okkur líka kleyft að eiga við hann óformlegt samtal sem oft á tíðum er ekki síður mikilvægt og í mínum huga jafnvel mikilvægara. Að eiga svoleiðis stundir með vinum og bandamönnum,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Kænugarði.
Mynd/Stjórnarráðið

Nýtt sendiráð í Varsjá

Þórdís Kolbrún heldur svo áfram til Póllands þar sem hún fundar með öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.

„En svo erum við Ísland að opna sendiráð í Varsjá og við völdum dagsetninguna 1. desember, fullveldisdaginn til þess að gera það sem mér þótti vera táknræn skilaboð,“ segir Þórdís Kolbrún sem telur það tímabært að sendiráð sé opnað í Póllandi en tilkynnt var um opnun þess fyrr á þessu ári.

„Það skiptir gríðarlegu máli, bæði pólitískt og viðskiptalega og fyrir pólska samfélagið heima og þessar miklu djúpu rætur og samskipti sem eru orðin á milli okkar landa“ segir Þórdís Kolbrún en hún heldur síðar meir áfram til Malaví þar sem Ísland starfrækir tvíhliða þróunarsamvinnu.

Lopapeysur frá Íslandi

Sérstaka athygli vakti að Þórdís Kolbrún hafði með sér lopapeysur frá Íslandi sem hún færði Zelenskíj sem gjöf en þær voru prjónaðar af Sölku Sól ásamt vinkonum hennar Eygló Gísla og Sjöfn Kristjánsdóttur.

„Ég tók peysurnar með á fundinn og skildi þær eftir á fundarstað og sagði honum þegar ég kvaddi að ég hefði komið með hlýja íslenska ull sem var prjónuð með hlýju og myndi halda á þeim hita og þar að auki væru þær mjög fallegar,“ sagði Þórdís Kolbrún en hún gat ekki gefið honum þær í persónu vegna öryggisráðstafana.

„Það eru svo gríðarlega strangar öryggiskröfur að ég má ekki einu sinni taka penna með mér inn á fund. En ég geri ráð fyrir því að hann sé kominn með þetta í hendurnar. En svo verðum við bara að sjá til af hvaða tilefni hann ákveður að skella sér í peysuna;“ segir Þórdís Kolbrún og þakkar Sölku og vinkonum hennar sérstaklega fyrir að bregðast svo hratt við kallinu.

Salka Sólk ásamt Eygló Gísla og Sjöfn Kristjánsdóttir þegar þær færðu Þórdísi Kolbrúnu peysurnar fyrir ferðina.
Mynd/Facebook