Rauði krossinn á Íslandi hefur óskað eftir samtali við stjórnvöld um leiðir til að reka verkefni félagsins á annan hátt en í gegnum fjármögnum með spilakössum. Þá hefur Rauði krossinn einnig kallað eftir stefnu stjórnvalda um innleiðingu spilakorta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum.
Spilakassar hér á landi eru reknir af fyrirtækjunum Happdrætti Háskólans og Íslandsspilum, en hið síðarnefnda er í eigu Rauða krossins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Í tilkynningu Rauða krossins kemur fram að fjöldi mikilvægra verkefna félagsins hafi verið fjármögnuð með framlögum frá Íslandsspilum, meðal annars hafi verið brugðist við neyð vegna hamfara og áfalla hér á landi og hópum sem standi höllum fæti hafi verið veittur stuðningur.
Aðspurð að því hvort þversögn felist í því að framlög sem ítrekað eru sögð ýta undir neyð ákveðins hóps, þeirra sem eigi við spilavanda að etja, séu nýtt til að bregðast við neyð annars hóps, segir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi, að Íslandsspil hafi „um árabil lagt sitt af mörkum til að aðstoða fólk sem glímir við spilavanda í gegnum samvinnuverkefnið Ábyrg spilun“.

Sem dæmi hafi Íslandsspil og Happdrætti Háskólans gert þriggja ára samning við SÁÁ um „fjármögnun á sálfræðistuðningi við fólk með spilavanda,“ segir Brynhildur.
Í tilkynningunni segir að viðræður um breytt fyrirkomulag í kringum spilakassa hafa staðið við stjórnvöld í um áratug. Samtök áhugafólks um spilafíkn hafi bent á að taka skuli upp aðgangs- eða spilakort og að Rauði krossinn taki heilshugar undir þá nálgun. Spilakortin fela í sér að allir þeir sem spila í spilakössum eða öðrum peningaspilum hafi aðgangskort sem lagt er inn á fyrir fram. Þannig sé fjárhæð spilunar innan ákveðinna marka. Einnig geti spilarinn lokað fyrir aðganginn. Slík kort eru í notkun á hinum Norðurlöndunum.
Spurð að því hvort að spilakortin séu viðeigandi lausn eða hvort að hægt sé að finna leið til að spila umfram það sem kortin leyfa segir Brynhildur að eflaust séu slíkar leiðir fyrir hendi.
Rauði krossinn sinnir ekki meðferðarúrræðum af neinu tagi
„Rauði krossinn sinnir ekki meðferðarúrræðum af neinu tagi og hefur því hvorki svör né þekkingu til að geta svarað þessari spurningu,“ segir hún. Þá segir Brynhildur reynsluna hafa sýnt að með spilakortunum minnki tekjur af spilakössum töluvert og að þau virki fyrir þá einstaklinga sem verji hvað mestu í spilun.
Að sögn Brynhildar er stöðugt verið að leita nýrra leiða til að afla fjár til að reka starfsemi Rauða krossins á Íslandi. Því óski félagið eftir „auknu samtali við stjórnvöld í von um að finna leiðir til að reka verkefni Rauða krossins á annan hátt.“