Rauði krossinn á Ís­landi hefur óskað eftir sam­tali við stjórn­völd um leiðir til að reka verk­efni fé­lagsins á annan hátt en í gegnum fjár­mögnum með spila­kössum. Þá hefur Rauði krossinn einnig kallað eftir stefnu stjórn­valda um inn­leiðingu spila­korta. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Rauða krossinum.

Spila­kassar hér á landi eru reknir af fyrir­tækjunum Happ­drætti Há­skólans og Ís­lands­spilum, en hið síðar­nefnda er í eigu Rauða krossins og Slysa­varna­fé­lagsins Lands­bjargar.

Í til­kynningu Rauða krossins kemur fram að fjöldi mikil­vægra verk­efna fé­lagsins hafi verið fjár­mögnuð með fram­lögum frá Ís­lands­spilum, meðal annars hafi verið brugðist við neyð vegna ham­fara og á­falla hér á landi og hópum sem standi höllum fæti hafi verið veittur stuðningur.

Að­spurð að því hvort þver­sögn felist í því að fram­lög sem í­trekað eru sögð ýta undir neyð á­kveðins hóps, þeirra sem eigi við spila­vanda að etja, séu nýtt til að bregðast við neyð annars hóps, segir Bryn­hildur Bolla­dóttir, upp­lýsinga­full­trúi Rauða krossins á Ís­landi, að Ís­lands­spil hafi „um ára­bil lagt sitt af mörkum til að að­stoða fólk sem glímir við spila­vanda í gegnum sam­vinnu­verk­efnið Á­byrg spilun“.

Bryn­hildur Bolla­dóttir, upp­lýsinga­full­trúi Rauða krossins á Ís­landi.
Mynd/Aðsend

Sem dæmi hafi Ís­lands­spil og Happ­drætti Há­skólans gert þriggja ára samning við SÁÁ um „fjár­mögnun á sál­fræðistuðningi við fólk með spila­vanda,“ segir Bryn­hildur.

Í til­kynningunni segir að við­ræður um breytt fyrir­komu­lag í kringum spila­kassa hafa staðið við stjórn­völd í um ára­tug. Sam­tök á­huga­fólks um spila­fíkn hafi bent á að taka skuli upp að­gangs- eða spila­kort og að Rauði krossinn taki heils­hugar undir þá nálgun. Spila­kortin fela í sér að allir þeir sem spila í spila­kössum eða öðrum peninga­spilum hafi að­gangs­kort sem lagt er inn á fyrir fram. Þannig sé fjár­hæð spilunar innan á­kveðinna marka. Einnig geti spilarinn lokað fyrir að­ganginn. Slík kort eru í notkun á hinum Norður­löndunum.

Spurð að því hvort að spila­kortin séu við­eig­andi lausn eða hvort að hægt sé að finna leið til að spila um­fram það sem kortin leyfa segir Bryn­hildur að ef­laust séu slíkar leiðir fyrir hendi.

Rauði krossinn sinnir ekki með­ferðar­úr­ræðum af neinu tagi

„Rauði krossinn sinnir ekki með­ferðar­úr­ræðum af neinu tagi og hefur því hvorki svör né þekkingu til að geta svarað þessari spurningu,“ segir hún. Þá segir Bryn­hildur reynsluna hafa sýnt að með spila­kortunum minnki tekjur af spila­kössum tölu­vert og að þau virki fyrir þá ein­stak­linga sem verji hvað mestu í spilun.

Að sögn Bryn­hildar er stöðugt verið að leita nýrra leiða til að afla fjár til að reka starf­semi Rauða krossins á Ís­landi. Því óski fé­lagið eftir „auknu sam­tali við stjórn­völd í von um að finna leiðir til að reka verk­efni Rauða kross­ins á ann­an hátt.“