Finnland og Svíþjóð sóttu formlega um aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) í vikunni. Ríkin hafa bæði átt aðild að Evrópusambandinu frá tíunda áratug 20. aldar og sú aðild hefur hingað til ekki breytt þeirri hlutleysisstefnu sem lengi hefur verið byggt á í utanríkisstefnum ríkjanna. Svíþjóð hefur haldið hlutleysisstefnu allt frá 19. öld. Sagan er örlítið flóknari hjá Finnlandi. Árið 1939 réðust Sovétríkin inn í Finnland. Finnar vörðust valdatöku þeirra en neyddust til að taka upp hlutleysisstefnu þegar kalda stríðið hófst og hafa haldið þeirri hlutleysisstefnu síðan, þrátt fyrir að hafa verið undir miklum áhrifum frá Sovétríkjunum.

Finnland og Rússland hafa haldið nánum samskiptum í gegnum tíðina, enda nágrannaþjóðir. Finnar hafa þó alltaf farið varlega og fjárfest gífurlega í vörnum sínum, þar á meðal haldið uppi herskyldu. Finnar deila um 1.300 kílómetra landamærum með Rússum og landamæri NATO og Rússlands tvöfaldast því ef Finnland gengur í NATO.

„Rússneska innrásin í Úkraínu kom okkur í opna skjöldu, við bjuggumst ekki við henni en í kjölfarið fór fólk að endurhugsa aðstæðurnar,“ segir Ann-Sofie Stude, sendiherra Finnlands á Íslandi.

Hún segir ótrúlegt hvað stuðningur við NATO hafi aukist mikið á stuttum tíma en samkvæmt mælingum studdu 53 prósent Finna aðild að NATO fyrir innrás Rússlands en hann hefur nú aukist upp í 76 prósent. Hún tekur þó fram að umsókn Finna um aðild að NATO sé ekki beint gegn neinum heldur séu markmið hennar friður og stöðugleiki.

Í Svíþjóð hefur lengst af verið andstaða við aðild að NATO. Sænski jafnaðarmannaflokkurinn, flokkur Magdalenu Andersson forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur í gegnum tíðina verið á móti inngöngu í NATO en Andersson sagði fyrr í vikunni að besta leiðin fyrir öryggi Svíþjóðar á þessu stigi væri að sækja um aðild, samhliða umsókn Finna.

Samkvæmt mælingu frá árinu 2013 voru 39 prósent sænsks almennings andvíg aðild að NATO en 35 prósent voru hlynnt. Viðhorfin hafa breyst töluvert á síðustu níu árum. Nú eru 53 prósent hlynnt aðild að NATO og stuðningurinn hækkar í 64 prósent þegar spurt er hvort Svíþjóð og Finnland eigi að sækja saman um aðild, þá eru 64 prósent hlynnt aðild.

Margræð áhrif aðildar

Aðild Finnlands og Svíþjóðar hefur bæði hernaðarlegt og stjórnmálalegt mikilvægi fyrir NATO. Í Eystrasaltinu liggur fjórðungur rússneska flotans en með inngöngu Finna og Svía yrði hafið að megninu til yfirráðasvæði NATO.

Vladímír Pútín Rússlandsforseti hefur kennt Vesturlöndum og stækkun NATO um stríðið í Úkraínu. Það var einmitt umræðan um umsókn Úkraínu að NATO sem var kornið sem fyllti mælinn hjá Rússum. Frá því að þreifingar um aðild ríkjanna hófust hafa hótanir ítrekað borist frá Rússlandi um samræmdar aðgerðir gegn ríkjunum verði ekki látið af slíkum þreifingum. Í gær tilkynntu rússnesk stjórnvöld að herstöðvum í vesturhluta Rússlands verði fjölgað gangi ríkin tvö í NATO.

„Það væri líkleg leið fyrir Rússa að reyna að herja á NATO-löndin með upplýsingaóreiðu, falsfréttum og tilraunum til íhlutunar í lýðræðislega ferla, sem er í rauninni það sem heitir fjölþáttaógnir.“

„Pútín gaf í skyn fyrr í vikunni að hann sæi aðild Finnlands og Svíþjóðar ekki sem beina ógn við Rússland,“ segir Brynja Huld Óskarsdóttir, öryggis- og varnarmálafræðingur. Hún segir orð forsetans í þessa veru hafa gefið til kynna að hann vildi reyna að draga úr spennu á svæðinu.

„En nú berast fréttir af aukinni hernaðaruppbyggingu í vesturhluta landsins frá Sergej Sjoígú, varnarmálaráðherra Rússlands, sem er ekki til þess að róa hlutina,“ segir hún. Það verði í höndum ráðamanna NATO hvernig brugðist verði við því. Þá bætir Brynja við að Finnar og Svíar hafi verið skýrir í vikunni með að ætla ekki að leyfa erlendar herstöðvar eða hýsingu kjarnorkuvopna innan sinna landa.

„Það væri líkleg leið fyrir Rússa að reyna að herja á NATO-löndin með upplýsingaóreiðu, falsfréttum og tilraunum til íhlutunar í lýðræðislega ferla, sem er í rauninni það sem heitir fjölþáttaógnir,“ segir Brynja Huld en segir hlutina þó geta breyst hratt.

Brynja Huld Óskarsdóttir, öryggis- og varnarmálafræðingur.
Fréttablaðið/Anton Brink

Afstaða Tyrkja sker sig úr

Búist er við að umsóknarferli Finnlands og Svíþjóðar taki einungis nokkrar vikur og það yrði stysta umsóknarferli í sögu varnarbandalagsins. Aðildarferli Norður-Makedóníu, nýjasta aðildarríkisins, tók um það bil tvö ár.

Umsóknarferill ríkjanna hófst formlega með bréfi til Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO. Viðræður um aðildarsamninga fara nú í gang og í kjölfar undirritunar þeirra hefst fullgildingarferli í öllum aðildarríkjum, oftast með aðkomu þjóðþinganna. Hér á Íslandi leggur utanríkisráðherra samningana fyrir ríkisstjórn og í kjölfarið verður mælt fyrir þingsályktunartillögu um aðildina á Alþingi. Fullgildingunni lýkur svo með atkvæðagreiðslu á Alþingi og undirritun forseta Íslands í kjölfarið.

Nýtt ríki verður ekki tekið inn í NATO fyrr en öll aðildarríki hafa fullgilt aðildarsamninginn. Þegar þeim áfanga er náð fullgilda umsóknarríkin samninginn fyrir sitt leyti og með því lýkur ferlinu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO.
Mynd/Stjórnarráð Íslands

Umsóknunum hefur verið tekið fagnandi af leiðtogum flestra aðildarríkja NATO og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur sagt að tekið verði á móti ríkjunum opnum örmum. Hann telur þó að andstaða Tyrklands gæti hægt á umsóknarferlinu en er þó vongóður um að þeim snúist hugur.

Recep Tayyip Erdoğan hefur lýst yfir andstöðu við inngöngu ríkjanna tveggja í NATO, en Tyrkland hefur verið aðildarríki frá 1952. Erdoğan segir ríkin tvö vera „gistiheimili“ fyrir hryðjuverkastarfsemi, þar virðist hann vísa til Kúrda sem flúið hafa Tyrkland til Svíþjóðar. Hann segist ekki ætla að samþykkja umsókn ríkjanna nema að þau framselji 33 „hryðjuverkamenn“ sem dvelja í Finnlandi og Svíþjóð.

Brynja Huld bendir á að ríki sem sækir um aðild að NATO hefur aldrei fengið höfnun. „Ég tel mjög líklegt að næstu daga munum við sjá sendinefndir Svíþjóðar og Finnlands en líka bara ráðamenn frá Brussel reyna að koma þannig að málum við Erdoğan að hann muni samþykkja aðildina,“ segir hún.

Lofar engu um þingflokk VG

„Við stöndum með lýðræðislegri niðurstöðu Finna og Svía og munum greiða fyrir þessu máli í gegnum Alþingi,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um aðildarumsóknir ríkjanna í Atlantshafsbandalagið. Hún segir málið hafa þverpóli­tískan stuðning hérlendis og býst við að þingið afgreiði málið fljótt eftir að tillaga um það verður lögð fram á Alþingi.

Andstaða við aðild Íslands að NATO hefur verið grundvallarstefna Vinstri grænna frá stofnun flokksins. Þegar Norður-Makedónía gekk í NATO sátu þingmenn VG ýmist hjá í atkvæðagreiðslunni eða voru fjarverandi. Katrín segist engu geta lofað um hvernig flokksfélagar hennar greiði atkvæði um aðild Svía og Finna. Sjálf hafi hún tilkynnt forsætisráðherrum ríkjanna tveggja að hún muni styðja þá niðurstöðu sem ríkin hafi sjálf komist að.

Katrín segist hafa fullan skilning á aðstæðum Svíþjóðar og Finnlands og telur ekki að aðild þeirra að NATO muni spilla friðinum sem ríkt hefur á Norðurlöndum.

„Ég tel að þetta muni styrkja rödd Norðurlandanna,“ segir Katrín og bendir á að sameiginlegt markmið Norðurlandanna hafi verið að halda norðurslóðum og Norðurlöndunum sem lágspennusvæði.