Rekstraraðilar Skálans Þorlákshöfn, Snælandvideo og Olís hafa tekið ákvörðun um að hætta með spilakassa í verslunum sínum og segja þau ákvörðunina byggjast á samfélagslegri ábyrgð.

Samtök áhugafólks um spilafíkn (SÁS) hafa undanfarna mánuði lagt fram þá kröfu að spilakössum á Íslandi verði lokað og hefur fjöldi fólks deilt sögum sínum um spilafíkn og þá neyð sem hún skapar á heimasíðu samtakanna.

Þá hefur verið uppi umræða um jákvæð áhrif sem hlotist hafi á líf spilafíkla þegar kössunum var lokað vegna sóttvarnareglna. Með breyttum reglum sem tóku gildi á miðnætti er spilasölum og spilakössum heimilt að opna að nýju.

Elsa Kolbrún Gunnþórsdóttir rekur Skálann Þorlákshöfn ásamt eiginmanni sínum, Jóni Jónssyni, þar til í mars voru þau með spilakassa í versluninni. Elsa segir þau hjónin lengi hafa rætt um að hætta með kassana. „Svo þegar umræðan um spilakassa jókst í samfélaginu þá ýtti það við okkur,“ segir hún.

Elsa Kolbrún og Jón reka Skálann í Þorlákshöfn. Þar er ekki lengur hægt að spila í spilakössum.
Aðsend mynd.

Verða af miklu fé

Elsa segir mikinn fjárhagslegan ávinning af spilakössunum, rekstraraðilar verslana fái greidda prósentu af því sem í kassana kemur. „Við sáum sama fólkið koma aftur og aftur og eyða miklum tíma í kössunum, þetta er bara mjög sorglegt og við ákváðum að þetta gæti ekki verið það sem reksturinn okkar stæði og félli með,“ segir Elsa.

„Þetta er bara mjög sorglegt og við ákváðum að þetta gæti ekki verið það sem reksturinn okkar stæði og félli með.“

Elsa þekkir spilafíkn vel en faðir hennar þjáðist af slíkri fíkn. „Sú reynsla og það að horfa upp á þetta alla daga var það sem togaði í mig, maður er bara með sting í hjartanu,“ segir hún.

Elsa segir háar fjárhæðir koma inn í kassana en að þau hjónin séu stolt af þeirri ákvörðun að losa sig við þá. „Þegar maður opnar kassana á kvöldin og sér upphæðirnar sem fólk er búið að dæla í þá, það er alveg hræðilegt, þetta eru miklir peningar og enginn græðir nema þeir sem reka kassana,“ segir Elsa en árið 2018 voru tekjur rekstraraðila spilakassa hérlendis, Happdrættis Háskóla Íslands og Íslandsspila, af spilakössum tólf milljarðar.

Formaður SÁS segir að um stórt og mikilvægt skref í baráttu samtakanna sé að ræða.
Fréttablaðið/Valli

Lengi langað að hætta með kassana

Pétur Smárason, eigandi Snælandvideo í Núpalind, segist lengi hafa langað að hætta með kassana. Þegar þeim var lokað vegna sóttvarnareglna hafi hann séð að af þeim hlytist „meira ónæði en hitt.“

„Umræðan í þjóðfélaginu hefur vakið mann til umhugsunar.“

Hann segir fjárhagslegan ávinning þeirra ekki hafinn yfir samfélagslega ábyrgð. „Umræðan í þjóðfélaginu hefur vakið mann til umhugsunar,“ segir Pétur.

„Það var alveg fólk sem kom hingað og setti klink í kassann en við sáum mikið af fólki setja seðlabúnt í kassann og vinna ekki neitt,“ bætir Pétur við.

Stórkostlegt frumkvæði þrátt fyrir tekjutap

Alma Hafsteinsdóttir, formaður SÁS, segir að um stórt og mikilvægt skref í baráttu samtakanna sé að ræða. „Með því að skila þeim (spilakössunum) eru þeir að sýna í verki samfélags- og siðferðisferðislega ábyrgð og taka afstöðu þrátt fyrir að verða fyrir verulegu tekjutapi í formi umboðslauna,“ segir Alma.

„Það er í raun alveg stórkostlegt að einkaaðilar skuli sýna þetta frumkvæði og hætta með spilakassa á sama tíma og við sjáum formenn Rauða krossins og Landsbjargar réttlæta rekstur spilakassa.“

„Það er í raun alveg stórkostlegt að einkaaðilar skuli sýna þetta frumkvæði og hætta með spilakassa á sama tíma og við sjáum formenn Rauða krossins og Landsbjargar réttlæta rekstur spilakassa,“ bætir Alma við.

Fréttin hefur verið uppfærð:

Í upprunalegu fréttinni var hagnaður rekstraraðila spilakassa hérlendis sagður tólf milljarðar árið 2018, um er að ræða tekjur.