Árborg, Hafnarfjörður og Reykjanesbær, hafa tekið höndum saman í verkefni til að meta styrkleika nemenda af erlendum uppruna og gera þeim betur kleift að ná árangri. Í þeim tveimur síðarnefndu hefur verið nokkur fjöldi erlendra barna og í Árborg, þar sem fólksfjölgun er einna mest á landinu, hefur þeim fjölgað um rúmlega 60 prósent á fimm árum.

„Það er ótrúlegt hvað þau eru fljót að byrja að læra íslensku,“ segir Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Árborgar. Það taki þó þrjú ár að ná grunnorðaforða í tungumálinu og allt að tíu árum að ná sérorðaforða.

„Við megum ekki bíða eftir þessu til að þau nái árangri í öðrum greinum heldur horfa til þeirra eigin tungumálakunnáttu. Þau geta lært ýmislegt á sínu tungumáli samhliða íslenskukennslunni,“ segir Aneta Figlarska, kennsluráðgjafi í fjölmenningu hjá Árborg. Í Árborg eru nú 300 tvítyngd börn á leik-og grunnskólaaldri og framfarir í tækni hafa gert alla túlkaþjónustu auðveldari. En rannsóknir benda til þess að tvítyngd börn á Íslandi virðist ekki ná nógu góðum tökum á íslensku.

Verkefnið, Stöðumat fyrir erlenda nemendur, er sænskt að uppruna og hægt að nýta fyrir erlenda nemendur á öllum skólastigum. Tungumál verkefnanna eru 40 talsins. Sveitarfélögin hafa prófað sig áfram með það frá árinu 2016 og miðla nú reynslu sinni til annarra. Hefur það til dæmis verið tekið upp í Borgarholtsskóla í Reykjavík.

Aneta og Þorsteinn telja samstarf og þekkingu á þessu sviði mikilvægt, bæði innanlands og milli landa. Hér á landi eru haldnir reglulegir fundir til að meta stöðuna og kennsluráðgjafar halda námskeið fyrir starfsfólk skólanna. Mikilvægt sé að allir séu með í verkefninu, ekki aðeins íslenskukennarar.

Ríkið veitir fjármagni með erlendum nemendum í gegnum Jöfnunarsjóð til að takast á við verkefnið. „Þetta er allt á réttri leið,“ segir Aneta. „Við þurfum þó að gera betur, alveg frá fyrsta degi barns í leikskóla.“ Staðan sé mismunandi eftir sveitarfélögum, og jafnvel hverfum innan þeirra.

Áskoranirnar eru töluverðar. Nefnir Þorsteinn að þó að brottfall erlendra nema í framhaldsskólum hafi verið að minnka sé það samt allt of mikið. „Ef við stöndum okkur betur og nemendur fá verkefni við sitt hæfi verða þeir betur í stakk búnir fyrir framhaldsskóla og lífið,“ segir hann.

Bakgrunnur nemendanna er mjög mismunandi. Sumir eru börn innflytjenda á meðan aðrir koma beint úr flóttamannabúðum, jafnvel á efri skólastigum. Þeir sem voru framúrskarandi nemendur í heimalandinu lenda jafnvel á vegg í íslenskum skólum og dragast aftur úr. Aneta og Þorsteinn segja menningarmuninn geta skipt máli, til dæmis þyki mörgum áhersla Íslendinga á sundkennslu og að nemendur fari í sturtu framandi. Þess vegna sé fræðsla til foreldra og upplýsingar um væntingar þeirra til skólans mikilvægar.