„Það er ekki til ein sameiginleg reynsla Pólverja á Íslandi. Þetta er allt fólk með ólíkan bakgrunn, ólík markmið og ólíkar skoðanir,“ segir mannfræðingurinn Anna Wojtyńska. Á föstudaginn varði hún doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands um innflytjendur frá Póllandi. Um er að ræða niðurstöður 15 ára rannsóknar þar sem Anna ræddi við innflytjendur frá Póllandi um allt land ásamt greiningu á tölulegum gögnum.

Í júlí urðu Pólverjar 20 þúsund hér á landi, er það breyting frá um einu þúsundi fyrir 20 árum. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá er þó aðeins um að ræða pólska ríkisborgara sem skráðir eru með heimilisfang, ekki alla sem hafa íslenska kennitölu. Þá ná tölurnar ekki til þeirra sem starfa hér í stuttan tíma.

„Þetta hefur haft mikil áhrif á íslenskt þjóðfélag á stuttum tíma. Pólverjar eru orðnir stór hluti af verkamannastéttinni sem eykur mjög á fjölbreytnina í landinu. Pólsk áhrif eru víða án þess að fólk taki eftir þeim,“ segir Anna.

Vefur Embættis forseta Íslands er þýddur yfir á pólsku

Athygli vekur að vefur Embættis forseta Íslands er þýddur yfir á pólsku. „Pólverjar eru langstærsti hópur innflytjenda á Íslandi og Íslendinga sem fæddust erlendis. Að því leyti til tel ég þetta sjálfsagða þjónustu,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. „Ég hef í minni embættistíð hitt fjölda Pólverja og þykir mjög vænt um hversu margir eru orðnir færir í íslensku, hafa skotið hér rótum og vilja láta gott af sér leiða í íslensku samfélagi. En fólk verður ekki full­numa í íslensku á einni nóttu þannig að þetta lýtur að því að veita íbúum landsins eins góða þjónustu og unnt er að verða við.“

Erfitt að draga eina niðurstöðu

Anna segir erfitt að draga einhverja eina niðurstöðu út úr rannsókninni fyrir utan að reynsla Pólverja hér á landi sé mótsagnakennd. „Hluti þeirra eru farandverkamenn sem ætla aðeins að vera hér í stuttan tíma, aðrir flytja með fjölskyldu sinni, svo eru þeir sem ílengjast,“ segir Anna. „Sumir finna fyrir sterkri tengingu við Pólland þrátt fyrir að hafa búið á Íslandi í mörg ár, upplifa sig sem gesti. Margir sækjast í náin tengsl við aðra Pólverja og eru duglegir við að nota fríin til að heimsækja ættingja í Póllandi.“ Margir Pólverjar upplifi minni stéttaskiptingu hér á landi, en á sama tíma að þeir séu ráðnir í lægst launuðu störfin.

Anna, sem er sjálf frá Póllandi, þekkir tilfinningu margra um að sakna Íslands þegar hún er í Póllandi og öfugt. „Viðmælendur mínir sem hafa flust oftar en einu sinni milli landa tala um að hafa saknað hluta frá Íslandi þegar þeir voru komnir aftur til Póllands og þurftu tíma til að aðlagast aftur.“

Breytt upplifun

Eins og áður segir hefur Pólverjum hér á landi fjölgað mikið á þeim árum sem Anna hefur stundað rannsóknir. Hún hefur tekið eftir því hvernig Pólverjar upplifa Ísland öðruvísi í dag. „Það var alltaf þannig að viðmælendur mínir töluðu um hvað Ísland væri grátt og það væri engin náttúra. Í dag er þetta iðulega eitthvað sem allir tala jákvætt um, hvað náttúran hér sé falleg,“ segir Anna.

Það er þó eitt atriði sem sameinar flesta. „Íslenskan. Það er erfitt að læra íslensku. Svo þegar maður er búinn að læra helling, þá er maður stundum feiminn við að nota hana.“