Fjórði gas­lekinn frá Nord Stream gas­leiðslunum fannst í morgun, sunnan við Sví­þjóð. Lekarnir fjórir eru allir á al­þjóð­legum haf­svæðum. Tveir þeirra eru þó rétt fyrir utan sænsku lög­söguna og hinir tveir rétt fyrir utan þá dönsku.

Em­bættis­menn víða um Evrópu hafa kennt Rússum um skemmdar­verkið á gas­leiðslunum og segja það þátt í blendings­hernaði á þeirra vegum. Þá halda sumir þeirra fram að skemmdar­verkið sé leið þeirra til að hækka gas- og olíu­verð víða um Evrópu, en í dag er Noregur stærsti út­flytjandi gass og olíu í Evrópu.

Magda­lena Anders­son, for­sætis­ráð­herra Sví­þjóðar sagði nánast öruggt að sprengt hefði verið leiðslurnar, og að sökum þykktar þeirra sé ó­lík­legt að þær byrji að leka svona skyndi­lega, hvað þá allar í einu.

Gas­leiðslurnar liggja 1.200 kíló­metra á 80 til 110 metra dýpi í Eystra­saltinu og flytja metan­gas frá Rúss­landi til Þýska­lands, þar sem því er dreift frekar til Evrópu.

Nord Stream 1 var tekin í gagnið árið 2011 og hafði, fyrir stríðið í Úkraínu, flutt 170 milljónir rúm­metra af gasi frá Rúss­landi til Evrópu á degi hverjum. Eftir að stríðið hófst hefur hvorug leiðslan verið notuð, en leiðslurnar voru fullar af gasi samt sem áður.

Áður en lekarnir komu í ljós greindust sprengjur á jarð­skjálfta­mælum í bæði Dan­mörku og Sví­þjóð.