Ari Brynjólfsson
Miðvikudagur 23. desember 2020
06.00 GMT

„Það hefur ekkert breyst. Ekki neitt,“ segir Sigríður Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur og móðir drengs í þriðja bekk Fossvogsskóla.

„Hann fær mikið exem. Svo fær hann mikla heilaþoku, mikil þreyta, á erfitt með að læra og einbeita sér,“ segir hún. Ástandið breytist alltaf þegar hann er ekki í skólanum, tekur það hann nokkra daga að jafna sig að fullu. „Um daginn átti hann erfitt með að telja upp vikudagana, mánudagur, þriðjudagur, miðvikudagur. Hann gat það ekki. Það var ekkert mál um helgina þegar hann var ekki búinn að vera í skólanum.“

Ráðist var í umfangsmiklar endurbætur á hluta húsnæðis Fossvogsskóla vorið 2019 eftir að upp komst um myglu. Skólinn var opnaður aftur um haustið. Í kjölfarið fór aftur að bera á einkennum myglu hjá hópi nemenda. Í sumar var svo aftur ráðist í framkvæmdir á húsnæðinu eftir fund með skólaráði.

FB-Ernir190814-Fossvogsskóli-02.jpg

Í kjölfar þeirra framkvæmda voru tekin sýni í kjölfar þrýstings foreldra og starfsfólks. Fundust þá varhugaverðar tegundir myglu sem þekktar eru fyrir að geta myndað sveppaeiturefni og verið öðrum fremur heilsuspillandi þegar þær vaxa innanhúss. Í kjölfar þrifa var ráðist í aðra sýnatöku fyrr í þessum mánuði og vinnur Náttúrufræðistofnun nú að tegundagreiningu sem gerð verður opinber í úttekt verkfræðistofunnar Verkís á næstunni.

Fréttablaðið hefur rætt við foreldra þriggja nemenda við skólann sem enn finna fyrir einkennum myglu, þá hefur eitt barn hætt í skólanum í haust vegna þess. Foreldrarnir segja að þau viti um fleiri börn sem finni fyrir einkennum sem einungis sé hægt að rekja til húsnæðisins. Óskað hefur verið eftir liðsinni Umboðsmanns borgarbúa í málinu.

Finnur ekki fyrir einkennum annars staðar

Sigríður segir það útilokað að einkennin megi rekja til annars en húsnæðis skólans. „Hann tekur gríðarleg stökk í námsárangri þegar hann er ekki í þessu húsnæði. Til dæmis síðasta vor þegar hann var í útistofu,“ segir hún. „Hann finnur ekki fyrir einkennum annars staðar. Hann er líka þarna í marga klukkutíma á dag.“

Hún vill að það sé leitað betur að rakaskemmdum og myglu í skólanum. „Þegar það eru svona mörg börn sem finna fyrir þessu þá hlýtur þetta að vera dreift um skólann.“

Þau tóku fyrst eftir einkennum fyrir rúmu ári. „Hann var í útistofu en veiktist alltaf þegar hann fór í heimilisfræði. Fékk ljót útbrot. Púslin fóru að raðast og við áttuðum okkur hvað væri í gangi,“ segir Sigríður. „Þá fórum við að skrifa bréf til skólastjórnenda og Reykjavíkurborgar, þeim var sjaldan svarað. Úrræði skólastjórnenda virðast ekki vera nein. Okkur mætir bara tómlæti hjá borginni. Ég hef hringt, ég hef sent bréf, ég hef farið í fjölmiðla. Enginn hjá borginni hefur haft sambandi við okkur, foreldra barnsins.“

Hún hefur þó fengið símtal frá skólastjóra Fossvogsskóla. „Það var fimmtán mínútna samtal. Það er það eina sem hægt er að flokka sem eitthvað úrræði fyrir son okkar.“

Hættir líklega um áramótin

Sigríður segir erfitt að treysta borginni og skólastjórnendum eftir það sem á undan er gengið. „Fyrir ári síðan vorum við að senda bréf út af heimilisfræðistofunni, þá var okkur lofað að farið yrði í sýnatöku. Hún átti að fara fram í byrjun desember í fyrra, eftir mikinn þrýsting þá fengum við að heyra að hætt hafi verið við sýnatökuna og þeir tóku aldrei þessi sýni. Núna ári síðar erum við aftur að bíða eftir sýnatöku og erum aftur að ganga á eftir að sýnatökurnar fari fram,“ segir hún. „Hvernig eigum við að treysta þessu fólki? Hvernig eigum við að treysta því að nú sé raunverulega verið að leita að vandamálinu?“

Sonur Sigríðar hættir að öllum líkindum í skólanum áramótin og fer í annan skóla, yrði hann þá annað barnið sem hættir í skólanum í haust vegna myglueinkenna. „Við getum ekki boðið honum lengur upp á þetta. Hann þarf þá að fara frá öllum sínum vinum og verður í skóla í öðru hverfi en hann býr í. Þetta er ömurleg staða og við erum svakalega sorgmædd yfir þessu.“ Bindur hún vonir við að sonur hennar bíði ekki varanlega skaða. „Þetta getur kostað hann það að geta aldrei farið inn í rými sem eru eitthvað tæp þegar kemur að myglu. Þetta getur þýtt það að hann geti ekki valið hvaða menntaskóla eða vinnu sem er. Við ætlum að reyna að koma í veg fyrir það með því að taka hann út úr þessu húsnæði. Það eru svo 360 önnur börn í skólanum.“

Vildu fá eigin sérfræðing

Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags skólans og fulltrúi í skólaráði, segir að foreldrafélagið hafi í haust óskað eftir aðkomu sérfræðings af annarri verkfræðistofu að málinu, greitt yrði fyrir það úr sjóðum foreldrafélagsins, en engin svör hafi borist frá Reykjavíkurborg.

„Við ákváðum að ráða sérfræðing til þess að veita okkur ráðgjöf um stöðu mála og buðum þjónustu hans borginni, samhliða þeirra eigin sérfræðingi. Fram hafði komið á fundi að sérfræðingur sem borgin tefldi fram hélt því samtímis fram að sýnin sem lokaskýrsla byggði á væru mögulega ónýt, og að myglan kæmi utan frá sem hrakið var af sveppasérfræðingi NÍ. Þá misstum við trúna á að það væri verið að vinna þetta af heilindum. Við viljum fá annan sérfræðing til ráðleggingar um hvar, hvenær og hvernig sýnin eru tekin og meðhöndluð og hvernig beri að túlka þau. Þetta snýst ekki um að endurtaka vinnu sem þegar hefur farið fram, fjögur augu hljóta að vera betri en tvö á svona erfiðu verkefni,“ segir Karl Óskar.

Snýst það einnig um að vinna upp traust. „Borgin lofaði á fundi í september að mæta veikum börnum í skólanum. Engin úrræði hafa boðist sem leysa bráðavandann sem börnin standa frammi fyrir. Enginn í stjórnsýslunni virðist ætla að axla ábyrgð á að börnin séu áfram send inn í mengað húsnæði, ekki einu sinni borgarstjórinn. Mánaðargömul áskorun til hans stendur enn ósvöruð.“

Sagði líklegt að mygla sé í húsinu

Í maí gaf borgin það út að búið væri að fjarlægja allt skemmt efni og koma í veg fyrir frekari leka. „Ég er enginn sérfræðingur í húsbyggingum. Það sem ég veit er að börnin verða áfram veik eftir dvöl í skólanum og í hvert skipti sem húsnæðið er skoðað kemur í ljós lifandi mygla og rangur frágangur verktaka,“ segir Karl Óskar. „Við getum ekki fullyrt um hvar vandinn liggur í húsnæðinu, við vitum bara að börnin sýna sömu einkenni og fyrr þegar ástæða hefur verið til aðgerða.“

Náttúrufræðistofnun vildi ekki tjá sig um rannsóknina. Fram kom í máli sveppasérfræðings á fundi sem haldinn var með foreldrum í lok september í kjölfar sýnatöku að ef einstaklingur finni fyrir einkennum í húsnæði og hefur verið útsettur fyrir myglu áður þá sé mjög líklegt að það sé mygla í húsnæðinu. Á sama fundi sögðu fulltrúar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar að það sé ekkert sem gefi tilefni til að skólinn sé mengaður, það sé í lagi að endurtaka sýnatöku en líklega komi ekkert út úr því.

Hér má lesa fundargerð fundar skólaráðs og Reykjavíkurborgar frá því í september.

Karl Óskar vill að haldið verði áfram að leita. „Það er ekki hægt að flytja ábyrgðina á húsnæðinu af eiganda yfir á foreldra. Börnin halda áfram að verða veik í húsnæði skólans. Það gengur ekki að segja að ef foreldrar vita ekki hvar á að leita, þá sé vandinn ekki til staðar. Þeirra sérfræðingar þurfa að halda áfram að leita. Mygla er slægur óvinur.“

Segja fullt mark tekið á athugasemdum

Leitað var eftir viðbrögðum Reykjavíkurborgar við umfjölluninni, óskað var eftir því að yfirlýsingin hér fyrir neðan yrði birt í heild sinni.

L02310117 Ráðhúsið 02.jpg

„Starfsfólk umhverfis- og skipulagssviðs og annað starfsfólk borgarinnar sem hafa komið að málefnum Fossvogsskóla hefur ætíð hlustað á bæði foreldra og foreldraráð skólans og tekið fullt mark á þeim athugasemdum og ábendingum sem komið hafa fram. Húsnæðið hefur allt verið tekið í gegn og komið í veg fyrir rakavandamál.

Þær aðgerðir og það verklag sem nú er fylgt varðandi endurbætur og aðbúnað í Fossvogsskóla var samþykkt á sameiginlegum fundi skólaráðs Fossvogsskóla, skóla- og frístundasviði og umhverfis- og skipulagssviði í september og tilkynning þess efnis send til allra foreldra. Í Fossvogsskóla eru 360 nemendur og 50 starfsmenn.

Skólastjóri, í samráði við nemendaverndarráð Fossvogsskóla fjallar um málefni þeirra nemenda sem hér um ræðir. Í nemendaverndarráði situr meðal annarra skólahjúkrunarfræðingur skólans.

Á fundinum í haust sem vitnað er til í fyrirspurninni var talað um að viðgerðavinnu í skólanum væri að ljúka en jafnframt var ákveðið að taka mælingar fyrir og eftir þrif svo hægt væri að meta ástand á rykögnum í skólanum. Það hefur verið gert.

Eftir að niðurstöður loftgæðamælinga frá Mannviti voru kynntar fyrir foreldrum og skólaráði varð umhverfis- og skipulagssvið við óskum foreldra og skólaráðs um að skipta um verkfræðistofu í byrjun 2019. Verkís sem er óháður sérfræðingur í verkefninu tók þá við rannsóknar- og greiningavinnu á byggingarhlutum skólans. Í skilaboðum Verkís til borgarinnar var lagst gegn því að tekin verði sýni í húsnæðinu til tegundagreiningar þar sem ekki væri nauðsyn á því.

Ekki var talið forsvaranlegt að fá þriðju verkfræðistofuna til þess að vinna sömu vinnu og Mannvit og Verkís höfðu þegar unnið sérstaklega í ljósi þess að öll sýni sem send eru til greiningar eru send til sama aðila, þ.e. Náttúrufræðistofnunar Íslands sem leggur fræðilegt mat á greiningu sýna jafnt fyrir alla aðila sem senda til þeirra sýni. Niðurstaða greininga sýna sem send eru til NÍ eru alltaf opinber. Verkfræðistofurnar Mannvit, Verkís og Efla nota í grunninn sömu aðferðir.“

Athugasemdir