Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjaness fyrr í þessari viku dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað en hann tók vörur úr verslunum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar ófrjálsri hendi um miðjan janúarmánuð árið 2019.

Áætlað verðmæti þýfisins var um 245.623 krónur en hann fór víða um flugstöðina í leit sinni að fýsilegum vörum til þess að hnupla.

Þannig greiddi hann ekki fyrir átta Marlboro-sígarettukarton, tíu flöskur af ilmvatni, Hugo Boss peysu og Bose Quiet Comfort heyrnartól sem fundust í poka hans eftir för hans um Leifsstöð.

Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll en ákæra var birt í Lögbirtingablaðinu 8. febrúar síðastliðinn. Samkvæmt upplýsingum lögreglu er ákærði farinn af landi brott og óvíst er um dvalarstað hans.

Þjófurinn er ekki á sakaskrá hér á landi, þar af leiðandi þótti rétt að fresta fullnustu refsingar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá því að dómurinn var kveðinn upp