Nýtt landamærakerfi frá franska fyrirtækinu Idemia verður tekið í notkun á fyrri hluta árs 2022. Verður þetta töluverð breyting fyrir farþega utan Schengen-svæðisins en hefur ekki áhrif á Íslendinga eða aðra borgara innan þess. Sett verða upp sjálfvirk hlið og stöðvar á flugvöllum og höfnum landsins þar sem andlit og fingraför eru skönnuð.

Jón Pétur Jónsson, yfirlögregluþjónn og sviðsstjóri landamærasviðs hjá Ríkislögreglustjóra, segir kerfið lið í að uppfylla Evrópureglugerð sem taki að fullu gildi árið 2022. „Þetta er talsvert mikil breyting og krefst undirbúnings. Við munum reyna að nýta okkur sjálfvirknivæðinguna eins og við getum,“ segir hann. Með lögreglunni stendur Isavia að innleiðingu kerfisins sem rekstraraðili Keflavíkurflugvallar.

Þegar borgarar utan Schengen koma í fyrsta skipti verða þeir skráðir inn í kerfið með fingrafari og mynd. Er skráningin staðfest af landamæraverði og gildir í þrjú ár. Þegar þeir fara út af svæðinu er aftur tekin mynd og borin saman við þá sem er í kerfinu. Er þetta gert meðal annars til að sjá hvort fólk hafi dvalið lengur en heimilt er og leysir þá af hólmi stimpil í vegabréf.

Jón segir að hægt sé að nota kerfið annars staðar en á landamærum. „Til dæmis ef einstaklingar sem eru skilríkjalausir gera ekki grein fyrir sér við afskipti löggæslu þá er hægt að sannprófa þá með því að bera þá saman við gagnagrunninn,“ segir hann. Evrópusambandið er nú að koma upp sameiginlegum lífkennagagnagrunni fyrir allt Schengen-svæðið.

Idemia er stærsta lífkennafyrirtæki heims og hefur reynslu af því að starfa með ríkisstjórnum. Til að mynda hefur það umsjón með langflestum ökuskírteinum í Bandaríkjunum. Það var stofnað árið 2017 eftir samruna fyrirtækja sem höfðu starfað síðan snemma á níunda áratugnum.

Jón Pétur segir strangar reglur gilda um notkun gagnanna.

Fyrirtækið hefur þó ekki sloppið við gagnrýni. Í frétt AP frá því í fyrra er sagt frá áhyggjum áhugafólks un netöryggismál um að Idemia geti verið viðkvæmt fyrir netárásum. Annaðhvort frá einstökum netglæpamönnum eða öðrum ríkjum. Einnig að hættulegt sé að svo miklar upplýsingar safnist fyrir á einum stað, í tilfelli Bandaríkjanna séu þetta lífkennaupplýsingar um fólk frá mörgum ríkisstofnunum sem kaupi þjónustu af Idemia.

„Það gilda mjög strangar reglur um notkun þessara gagna,“ segir Jón Pétur, aðspurður um persónuverndarsjónarmið og öryggi þeirra gagna sem safnað verður. „Þetta uppfyllir löggjöf um persónuvernd og Evrópusambandið sýnir mikla varkárni með þetta.“