Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra mætir fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis klukkan níu í fyrramálið. Á fundinum verður rætt um samskipti dómsmálaráðherra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn lögreglunnar á Ásmundarsalsmálinu.

Tilefnið er símtal ráðherrans við lögreglustjórann á aðfangadag eftir að lögreglan tilkynnti fjölmiðlum í dagbók sinni að „háttvirtur ráðherra“ hafi verið í fjölmennu samkvæmi í samkomubanni en það reyndist vera Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Andrés Ingi Jónsson alþingismaður óskaði eft­ir því að Áslaug kæmi fyr­ir stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd Alþing­is, en hann segist vilja fá beint frá henni hvernig samskiptin voru við lögreglustjóra.

Bæði Áslaug Arna og Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri segjast hafa rætt tvisvar saman í gegnum síma um Ásmundarsalsmálið og hafi bæði samtölin snúið að upplýsingagjöf lögregluembættisins og persónuverndarsjónarmið.

Andrés Ingi segir erfitt fyrir nefndina að sinna eftirlitshlutverki í gegnum frásagnir fjölmiðla og sé því mikilvægt að ræða beint við ráðherrann.

„Grundvallarspurningin er um þessi mörk á milli eftirlitshlutverks ráðherra og hvenær samskipti geta orðið afskipti af rannsókn lögreglunnar. Þarna er fín lína sem ráðherrann má ekki fara yfir,“ segir Andrés Ingi í samtali við Fréttablaðið.

Bjarni situr ekki einungis í ríkisstjórn með Áslaugu, heldur er hann einnig flokksbróðir hennar og þar að auki formaður í þeim flokki. Af því að þetta mál tengist ráðherranum á þennan tiltekna hátt skiptir máli að hún hafi stigið varlega til jarðar þegar hún ræddi við lögreglustjórann að sögn Andrésar.

Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu sendi frá sér tilkynningu í kjölfar umfjöllunarinnar á aðfangadag um að mis­brestur hafi orðið til þess að per­sónu­greinan­legar upp­lýsingar hafi verið sendar úr dag­bókinni.

Vert er að nefna að Persónuvernd taldi ekki tilefni til að aðhafast vegna dagbókarfærslunnar en Vigdís Eva Líndal, staðgengill forstjóri Persónuverndar, sagði að almennt njóti opinberar persónur minni friðhelgi en aðrar.

Andrés telur athugasemd Persónuverndar hafa verið afdráttarlausa. „Það er stofnun sem mér finnst yfirleitt stíga frekar varlega til jarðar í þessum málum.“