Samkvæmt nýrri könnun Gallup fyrir Embætti landlæknis, sem gerð var í júní síðastliðnum, nota 19,7 prósent karlmanna á aldrinum 18 til 34 ára nikótínpúða undir vör daglega. Nikótínpúðarnir hófu innreið sína á íslenskan markað á seinni helmingi ársins 2019. Eru nú margar tegundir, mismunandi styrkleiki og bragðtegundir seldar hér á landi.

Embætti landlæknis hefur varað við púðunum, engin lög eða reglugerðir séu til og lítið sé vitað um afleiðingar púðanna. Sala ÁTVR á neftóbaki hefur minnkað mikið á árinu, til að mynda um 37 prósent í janúar, að öllum líkindum vegna innreiðar nikótínpúðanna.

Hlutfall ungra manna sem nota nikótínpúða af og til er 7,1 prósent. Hlutfallið er talsvert lægra hjá ungum konum, 11,7 prósent nota púðana daglega en 6,3 prósent af og til.

Nikótínpúðarnir eru mun óvinsælli hjá eldri aldurshópum en þó nota 9 prósent karla á aldrinum 35 til 54 ára þá daglega. 1,4 prósent kvenna á sama aldri nota nikótínpúða daglega sem er sama hlutfall og hjá körlum 55 ára og eldri. Aðeins hálft prósent kvenna 55 ára og eldri notar nikótínpúða.

Neftóbaksneysla, oftast undir vör, hafði verið á lítilli uppleið á Íslandi fyrir komu púðanna. Í talnabrunni Embættis landlæknis fyrir árið 2019 kom fram að hlutfall notenda hafði hækkað úr 5 prósentum í 7 frá fyrra ári, og úr 21 prósenti í 24 hjá ungum körlum. Ekki er úr vegi að álykta að þetta hlutfall eigi eftir að lækka þegar tölurnar verða uppfærðar vegna mikillar notkunar púðanna.

Í talnabrunninum kom einnig fram að rafrettunotkun hefði haldist stöðug milli ára, 7 prósent, en reykingar væru á niðurleið. Árið 2019 reyktu 11 prósent Íslendinga, þar af 8 prósent daglega, sem samsvarar um 30 þúsund manns. Fyrir aðeins sex árum reyktu 17 prósent Íslendinga og árið 1991 var hlutfallið tæp 30 prósent.