„Ég er 62 ára og kom í sveit á einu stærsta blómkálsbúi landsins tólf ára gamall. Þar ólst ég upp fimm sumur í röð hjá Einari Hallgrímssyni, einum fremsta blómkálsbónda landsins, og fór frá honum í Garðyrkjuskólann. Þannig hefst vegferðin á þessum fimmtíu árum.

Mér brá í vor þegar ég áttaði mig á því að þetta væri í fimmtugasta skiptið sem ég var að hefja ræktunina,“ segir Guðjón Birgisson garðyrkjubóndi, sem fagnar fimmtíu ára afmæli í blómkálsræktun á þessu ári. Guðjón rekur ásamt eiginkonu sinni, Sigríði Helgu Karlsdóttur, gróðrarstöðina Mela á Flúðum þar sem þau rækta einnig tómata, gúrkur og ýmiss konar salat.

„Þetta er frekar einhæfur starfsferill, en það er ekki bara blómkál sem við erum að vinna við. Við erum með stóra garðyrkjustöð sem vinnur ýmiss konar grænmeti. Þetta er enn þá bara svo gaman,“ segir hann glettinn, aðspurður hvernig maður endist svona lengi í sama starfi.

„Við höfum alveg tekið eftir aukningunni í eftirspurninni eftir blómkáli á síðustu árum enda er þetta mjög góð vara sem hægt er að nota ýmist í lágkolvetnalífsstíl eða grænkeralífsstíl,“ segir Guðjón, sem er að taka upp eitt besta blómkál sem hann man eftir.

„Árið í fyrra var mjög gott blómkálsár, uppskeran aðeins seinni í ár en hún kemur afskaplega vel út. Það þarf ýmislegt til, eins og hagstæða veðurátt eins og við fengum í sumar.“

Blómkálið aldrei flottara

Framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna, Gunnlaugur Karlsson, tekur í sama streng.

„Uppskera þessa árs kemur seinna inn en með miklum látum. Það var næturfrost í vor sem olli mönnum áhyggjum en síðan þróast sumarið þannig að skilyrðin voru frábær til blómkálsræktunar. Við höfum aldrei séð flottara blómkál en er að koma upp núna og vonandi næst að anna eftirspurninni sem er mikil.“

Gunnlaugur segir að það hafi margt breyst þegar kemur að eftirspurn eftir blómkáli á síðustu árum. Sífellt fleiri veitingastaðir eru farnir að bjóða upp á blómkál í hinum ýmsu útfærslum sem hugnast grænkerum og eru blómkálsvængir þar sérstaklega vinsælir.

„Þetta er gríðarleg aukning á síðustu árum. Það þarf ekkert að fara langt aftur í tímann til að finna tíma þar sem það var lítið sem ekkert grænmeti við borðið. Grænkerar eiga hrós skilið fyrir að hafa komið fram með ýmsar nýjungar, sérstaklega þegar kemur að blómkáli.“