„Hér er því­líkt kaos og gífur­leg von­brigði,“ segir Haf­dís Ólafsdóttir, móðir einnar af fimm­tíu stúlkum sem áttu að fljúga til Madríd á Spáni til að taka þátt í heims­meistara­móti í dansi, en flugi þeirra með Play var af­lýst með skömmum fyrir­vara og ó­ljóst er hvort þau komist á mótið.

Fimm­tíu stúlkur á vegum Jazz­ballett­skóla Báru voru komnar upp á flug­völl fyrr í dag þegar flugi þeirra var af­lýst, stúlkurnar eru á aldrinum 13 til 17 ára. Ó­víst er hvort þær komist á heims­meistara­mótið en það hefst á þriðju­daginn.

„Þetta eru náttúru­lega bara ung­lings­stúlkur sem eru búnar að safna fyrir þessari ferð og fyrstu nem­endurnir áttu að keppa núna á þriðju­daginn,“ segir Haf­dís.

„Þeir senda okkur standard póst eins og allir fá að fluginu sé af­lýst og að við getum breytt fluginu okkar í annan á­fanga­stað á vegum Play eða í næsta flug til á­fanga­staðarins,“ segir Haf­dís en næsta flug Play til Madríd er á mið­viku­dag, og því of seint fyrir stelpurnar.

Að­spurð að því hvort þau búist við að komast út svarar Haf­dís: „Við höldum í vonina. Við verðum að komast út sem fyrst.“

Voru mætt á flug­völlinn

Að sögn Haf­dísar voru stúlkurnar og nokkrir for­eldrar þeirra lagðir af stað til flug­vallarins þegar þau fengu tölvu­póst þar sem þau voru beðin um að leggja ekki af stað upp á flug­völl. Hún segir hópinn hafa á­kveðið að hittast upp á velli um tólf en flugið átti að vera klukkan þrjú.

„Okkur var síðan sagt að við fengum nýjar upp­lýsingar klukkan þrjú, klukkan þrjú var sagt að við fengjum aftur upp­lýsingar klukkan fjögur og þá komu þessar fréttir að fluginu væri af­lýst,“ segir Haf­dís.

Haf­dís segir Play ekki hafa staðið sig í að að­stoða hópinn. „Við erum að leita allra leiða og skoða hvernig við getum komist út. Play er ekki að að­stoða okkur við það,“ segir hún.

Illa gengið að ná sam­bandi við Play

Skýringin fyrir því af hverju fluginu var af­lýst voru tækni­legir örðug­leikar, annars hefur þeim gengið illa að ná sam­bandi við skrif­stofur Play. „Þetta er dans­skóli sem bókar hjá þeim í gegnum hóp­þjónustu þeirra og hún er lokuð um helgar og tengi­liður dans­skólans við Play fær engin svör og ekkert sam­band,“ segir Haf­dís.

„Mig langar bara að koma því á fram­færi að þetta er til há­borinnar skammar að flug­fé­lag lætur ekki ná í sig eða að það heyrist ekkert frá þeim. Þau vissu að þau væru að fara að flytja 50 stúlkur á heims­meistara­mót í dansi,“ segir Haf­dís.