Umhverfisráðuneytið mun veita 50 milljónum króna til að reyna að koma í veg fyrir olíuleka úr flaki breska skipsins El Grillo sem sökkt var í Seyðisfirði árið 1944.

Samkvæmt svari Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfisráðherra við fyrirspurn Lenyu Rúnar Karim, þingmanns Pírata, verður 10 milljónum varið til uppsetningar flotkvíar. Hún á að fanga brákina sem getur borist upp á yfirborðið. Þá verður 40 milljónum króna veitt til að steypa fyrir sprungur á tveimur tönkum flaksins.

Rætt verður við erlenda sérfræðinga um hvernig eða hvort hægt sé að koma í veg fyrir leka í eitt skipti fyrir öll. Hins vegar sé verkefnið mjög flókið og erfitt. Flakið sé á 40 metra dýpi í miklu myrkri og enn leynast ósprungin skotfæri í því.