Sá sem tekur 50 milljóna króna verðtryggt lán fyrir íbúðakaupum þarf að greiða lánsfjárhæðina 14 sinnum til baka á lánstímanum miðað við vaxtastig dagsins í dag. Lánið stökkbreytist úr 50 milljónum í 700 milljónir króna.

Ýmir Örn Finnbogason, yfirmaður viðskiptagreindar hjá Deloitte, segir aðstæður afar óhefðbundnar. Að lánsfárhæð 14-faldist á 40 árum verði þó trauðla að veruleika til frambúðar, því vextir séu óvenju háir nú.

Í sjálfu sér er merkilegt að íbúðamarkaðurinn hafi ekki botnfrosið við þessar aðstæður að sögn Ýmis.

Nánast öll lán sem Íslendingar taka til húsnæðiskaupa þessa dagana eru verðtryggð. Ákvarðanir skýrast ekki síst af því að mánaðarleg afborgun er mun lægri þegar um verðtryggt lán er að ræða þótt lokareikningurinn geti orðið ansi hár samanber ofangreint dæmi.

Nánar verður fjallað um húsnæðismarkaðinn á Fréttavakt Hringbrautar í kvöld.