Þótt nokkurt hlé hafi byrjað í virkni eldgossins í Geldingadölum í gærkvöldi þykir of snemmt að lýsa yfir endalokum eldsumbrotanna.

„Ef gosið heldur áfram af sama krafti og nú, þegar tíu til tólf rúmmetrar eru að spúast út á sekúndu, þá er þetta sama rúmmál af gosefnum og hrauni og kom upp þegar Skjaldbreiður myndaðist með gosinu í Trölladyngju,“ sagði Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur við Háskóla Íslands, í viðtali á Hringbraut í gær.

„Þeir sem þekkja Skjaldbreið vita að hann stendur um 600 metra upp fyrir umhverfi sitt og er um það bil fimmtán til tuttugu kílómetrar í þvermál. Ef þetta gos stendur í 50 ár þá er mjög líklegt að það búi til svipað fyrirbæri.“

Standi gosið í þrjú og hálft ár, líkt og Surtseyjargosið 1963-1967, segir Þorvaldur að álíka mikið magn af hrauni muni koma upp á yfirborðið og myndaðist í Surtsey, eða í gosinu í Holuhrauni árin 2014-15.

Langtímahorfur gossins telur Þorvaldur talsverðar og segir hann jafnframt hugsanlegt að gosið geti annars staðar á Reykjanes­skaganum.

„Við höfum séð tiltölulega djúpa skjálftavirkni mjög staðbundið á tveimur til þremur stöðum á Reykjanesskaganum,“ sagði hann í samtali við Fréttablaðið.

Þorvaldur telur að verja þurfi innviði sem gosið gæti náð til.

„Einn staðurinn er alveg úti á Reykjanesi og annar við Trölladyngjuna. Þessi skjálftavirkni getur verið að gefa til kynna að það sé kvika að safnast fyrir neðarlega í skorpunni. Það getur leitt til þess á endanum að það verði nægileg kvikusöfnun þarna til að sú kvika leiti til yfirborðs og verði að eldgosi.“

Þorvaldur leggur áherslu á að nauðsynlegt kunni að vera að skoða ákveðnar sviðsmyndir um framvindu gossins og taka ákvarðanir út frá þeim, til að verja innviði og byggðir sem hraunrennsli kunni að ná til.

„Eitt dæmi til dæmis er að nýlega var reist verksmiðja í Vogunum sem er eina súrefnistönkunarverksmiðjan á Íslandi. Þar er súrefni sett á tanka, sem er notað á spítölum hér og þar og alls staðar. Það er möguleiki á að gos frá Reykjanesskaga verði þannig að hraun flæði í átt að Vogum og þá væru mikilvægir innviðir hætt komnir,“ segir Þorvaldur. Þetta þurfi að hugsa um

„Viljum við búa til aðra verksmiðju annars staðar eða getum við reist varnargarð í kringum hana? Þessi atriði þarf að skoða bæði á Reykjanesskaganum og, já, líka á Reykjavíkursvæðinu.“