Í gærdag og fram á kvöld fór lögreglan á höfuðborgarsvæðinu inn á 24 veitinga- og skemmtistaði til að fylgja eftir reglum um sóttvarnir, fjöldatakmörkun og 2 metra reglunni.

Af þessum 24 veitinga- og skemmtistöðum voru 15 staðir sem ekki voru að framfylgja sóttvarnarreglum þannig að viðunandi væri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Þar segir að fjöldi gesta á stöðunum oft slíkur að alls ekki var unnt að tryggja tveggja metra bil milli manna og sum staðar var ekki þverfótað vegna fjöldi fólks, bæði inni á stöðunum og utan við þá.

Eigendum og forsvarsmönnum var veitt tiltal eftir atvikum og þeim leiðbeint um hvað betur mætti fara. Lögreglan lítur þetta alvarlegum augum í ljósi aðstæðna og því er til skoðunar að grípa til hertra aðgerða, þar með talið beitingu sekta, til að sporna gegn brotum á sóttvarnarreglum.

2 veitingastöðum lokað þar sem leyfi voru ekki í lagi.

Mikill erlill var hjá lögreglu í gærkvöldi og í nótt eru komu upp 90 einstök mál og 7 aðilar vistaðir í fangageymslu. Mikið var um tilkynningar um hávaða frá heimilum.

Um kvöldmatarleytið var ölvaður maður handtekinn í byggingu á einkalóð í hverfi 105. Maðurinn vildi ekki segja til nafns og yfirgefa svæðið. Maðurinn var handtekinn og vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Upp úr kl. 20 var maður handtekinn við Ingólfstorg í miðbænum. Maðurinn var ofurölvi og var búinn að vera að ógna fólki með stól. Maðurinn var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Um eittleytið í nótt hafði lögreglan afskipti af ökumanni bifreiðar í Hafnarfirði. Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og hóf lögregla þá eftirför. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum, fyrirmælum lögreglu ekki hlýtt og reyndi að hlaupa frá vettvangi.