Fimmtán manns er saknað eftir skriðufall sem varð í bænum Ask í Gjerdrum héraði í Noregi í nótt. Nokkur íbúðarhús hafa eyðilagst og um 700 manns hafa þurfti að yfirgefa heimili sín.

Börgunarsveitir, lögregla og sjúkraflutningamenn hafa verið að störfum frá því klukkan fjögur í nótt. Þyrlur eru á sveimi og sérfræðingar eru að meta ástandið. Enn er hættuástand og líklegt að önnur skriða falli og geta því björgunarsveitarmenn ekki farið á skriðusvæðið til að leita að fólki. Þyrlan verður að duga í bili að því er fram kemur á vef NRK.

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, segir sárt að sjá eyðilegginguna eftir þessar hamfarir. Mikilvægt sé að viðbragðsaðilar nái að sinna vinnu sinni.