Yfirvöld í Austurríki, Sviss og Ísrael hafa staðfest tilfelli apabólu. Það eykur fjölda landa með staðfest tilfelli frá tólf upp í fimmtán. BBC greinir frá þessu.
Tilfellin sem greindust í Ísrael og Sviss eru frá einstaklingum sem höfðu verið að ferðast erlendis. Ísraelsk stjórnvöld hafa til skoðunar einstaklinga sem sýna einkenni apabólu.
Greint var frá því í gær að farandverkamaður sem hafði ferðast til Noregs hefði greinst með apabólu og því væri smitrakning hafin í Ósló.
Apabóla dreifist ekki auðveldlega á milli fólks og því hafa læknar verði furðu lostnir yfir fjölda tilfella í mismunandi heimsálfum á sama tíma. Veiran smitast aðeins frá manni til manns með náinni líkamlegri snertingu, eins og með kynlífi.
Rúmlega áttatíu tilfelli hafa verið staðfest í Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu en sjúkdómurinn er venjulega staðbundinn við Mið- og Vestur-Afríku.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur tilkynnt að verið sé að rannsaka fjölda annarra grunaðra tilfella en hefur ekki gefið út í hvaða löndum þau tilfelli séu. Stofnunin hefur varað við því að líklegt sé að fleiri tilfelli verði staðfest.