Forsætisráðuneytið og Samtökin ´78, hagsmuna- og baráttusamtök hinsegin fólks á Íslandi, hafa gert með sér samning um að samtökin sinni fræðslu, þjónustu og ráðgjöf er varða málefni hinsegin fólks. Samningurinn hljóðar upp á fimmtán miljónir. Hann gildir í ár og tekur gildi þann 15. febrúar á þessu ári.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að ráðgjafar- og fræðsluhlutverk Samtakanna ´78 verði eflt með fjárframlagi forsætisráðuneytisins. Þar segir einnig að samningnum sé ætlað að stuðla að „hinseginvænu samfélagi og auknum sýnileika hinsegin fólks. Skal þjónusta þessi beinast annars vegar að hinsegin einstaklingum og aðstandendum þeirra og hins vegar að fagfólki í almannaþjónustu s.s. í opinberri stjórnsýslu og skólum.“

Þar segir einnig að stjórnvöld leggi áherslu á jafnréttismál og eru meðal markmiða hennar að Ísland verði í fremstu röð hvað varðar málefni hinsegin fólks. Í ráðuneytinu er nú unnið að stefnumótun í málaflokknum og er áætlað að á núverandi þingi verði lagt fram frumvarp um  kynrænt sjálfræði og þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks. 

Auk þess að veita þjónustu og annast fræðslu skulu samtökin samkvæmt samningum standa að:

  • Árlegum samráðsfundum með kennurum sem kenna kynja-, jafnréttis-, og hinseginfræði á öllum skólastigum í því augnamiði að auka þekkingu og færni kennara á jafnréttismálum og málefnum hinsegin fólks.
  • Árlegum samráðsfundum með kjörnum fulltrúum og sérfræðingum sem vinna að opinberri stefnumótun á sviði jafnréttismála um málefni hinsegin fólks.
  • Alþjóðasamstarfi sem hafi að markmiði að byggja upp tengsl við systursamtök á hinum Norðurlöndunum og á alþjóðavettvangi og miðla af reynslu annarra hér á landi.
  • Þátttöku í árlegu kynjaþingi frjálsra félagasamtaka á sviði jafnréttismála og tryggja að raddir hinsegin fólks heyrist á þinginu.

Tilkynningu ráðuneytisins er hægt að lesa hér.